Ný rafræn skráning hönnuða

Með rafrænum byggingarleyfisumsóknum sparast tími bæði íbúa og starfsfólks. Arctic Images/Ragnar Th.
Yfirlitsmynd yfir Ártúnshöfða.

Nú er hægt er að skrá hönnuði hjá Reykjavíkurborg í rafræna greinargerð hönnunarstjóra um ábyrgðarsvið hönnuða. Framvegis verður ekki tekið við þessum skráningum á pappír. Þessi nýja rafræna skráning er hluti af því að gera allt ferlið í kringum byggingarleyfisumsóknir rafrænt.

Rafræna skráningu hönnuða er að finna á Mínum síðum Reykjavíkur. Þar er hægt að fylla út skráningarformin án þess að prenta neitt út og sent svo með tölvupósti í rafræna undirritun.

Hvernig virkar rafræn skráning hönnuða í greinargerð hönnunarstjóra?

  1. Byggingarstjóri eða annar umsækjandi skráir sig inn á Mínar síður með rafrænum skilríkjum.
  2. Viðkomandi fyllir út skráningarformið Greinargerð hönnunarstjóra með upplýsingum um þá hönnuði sem koma að framkvæmdunum og sendir í rafræna undirritun með einum smelli.
  3. Skráðum aðilum berst tilkynning í tölvupósti þar sem hægt er að undirrita skjalið rafrænt. Athugið að allir aðilar þurfa að undirrita skjalið rafrænt svo það berist byggingarfulltrúa.
  4. Þegar allir aðilar hafa undirritað er skráningin send til byggingarfulltrúa. Þessi skráning er nauðsynleg til að hægt sé að gefa út byggingarleyfi.

Upplýsingar eru sóttar úr réttindagátt HMS svo það er bara hægt að skrá einstaklinga með viðeigandi réttindi hönnuða.

Innleiðing í fullum gangi

Nú er hægt að sækja um byggingaleyfi rafrænt en enn sem komið er getur verið einhver bið á afgreiðslu nýrra byggingaleyfisumsókna. Innleiðing á afgreiðslu- og móttökukerfi umsóknanna er enn í fullum gangi og hægt er að hafa samband við þjónustuver Reykjavíkurborgar og starfsfólk byggingarfulltrúa til að fá nánari upplýsingar.

Með rafrænum byggingarleyfisumsóknum sparast tími bæði íbúa og starfsfólks. Sömuleiðis dregur úr kolefnisfótspori vegna starfseminnar út af minni útblæstri vegna bílferða og minni pappírsnotkunar.

Rafrænar byggingarleyfisumsóknir voru kynntar á opnum kynningarfundi í desember. Farið var yfir nýtt umsóknarferli, skil á rafrænum gögnum og afgreiðsluferil byggingarfulltrúa.