Ný leið við þróun byggðar í Keldnalandi

Sýning á vinningstillögu FOJAB arkitekta verður opnuð laugardaginn 21. september klukkan 11 í bókasafninu í Spönginni. Sama dag verður opið hús í Tilraunastöðinni klukkan 13 og loks verður boðið til gönguferðar með leiðsögn um svæðið klukkan 14.
Yfirlitsmynd yfir Keldnaland, sjór, gras, tré, vatn og hús.

Búið er að skipa dómnefnd í opinni alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands, sem Reykjavíkurborg og Betri samgöngur ohf. standa í sameiningu að. Í dómnefndinni eru meðal annars Brent Toderian og Maria Vassilakou en þau hafa sett sitt mark á Vancouver og Vínarborg, sem eru iðulega tilnefndar í hópi lífvænlegustu borga í heimi. Samkeppnin er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í hér á landi en með henni er verið að fara nýjar leiðir við að þróa byggð í borginni.

Rammi utan um megin innviði

Í stað þess að kalla eftir hönnunarlausnum sem sýna ítarlegt heildarskipulag fyrir allt svæðið, þar sem allt er leitt til lykta, er leitast við að fá fram ramma um megin innviði, svo sem Borgarlínu og græn svæði og raunhæfa áætlun um þróun og uppbyggingu svæðisins og lykil hönnunarviðmið.

Fjölbreytni með smærri skipulagsreitum

Keppendur þurfa þó að sýna fram á hæfni sína við hönnun og skipulag borgarhverfa, þar sem vistvænar, manneskjulegar og grænar lausnir, skulu vera megin viðmiðið.  Lögð er áhersla á að uppbygging svæðisins byggi á skynsamlegri áfangaskiptingu og fjölbreytni byggðarinnar verði tryggð með fjölmörgum smærri skipulagsreitum. Markmiðið er þannig að deiliskipuleggja og byggja þetta stóra hverfi í mörgum smærri áföngum.

Dómnefndin

Dómnefnd var skipuð af Reykjavíkurborg og Betri samgöngum og í henni eru:

  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, formaður
  • Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi
  • Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar
  • Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna
  • Guðrún Ögmundsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og stjórnarmaður í Betri samgöngum
  • Þorsteinn R. Hermannsson, forstöðumaður þróunar hjá Betri samgöngum
  • Maria Vassilakou, fyrrum varaborgarstjóri í Vínarborg og ráðgjafi í borgarþróun hjá Vassilakou Urban Consulting GmbH
  • Brent Toderian, fyrrum skipulagsstjóri Vancouver og ráðgjafi í borgarþróun hjá TODERIAN UrbanWORKS

Mikið lagt í undirbúning

Undirbúningsrannsóknir á Keldnalandi hafa staðið yfir frá árinu 2021. Lögð hefur verið áhersla á að vanda sérstaklega til undirbúnings samkeppninnar, með aðkomu Arkitektafélags Íslands og Félags íslenskra landslagsarkitekta.  Félögin, ásamt Skipulagsfræðingafélagi Íslands, hafa skipað sérstaka ráðgjafa sem verða dómnefnd til halds og traust við mat á tillögum.

Alþjóðleg tveggja þrepa samkeppni

Þessi opna alþjóðlega samkeppni um skipulag Keldnalands er ein sú stærsta sem ráðist hefur verið í hér á landi. Til að gefa keppninni aukið vægi var ákveðið að leita út fyrir landsteinana með tvo dómnefndarfulltrúa. Mikill fengur er af þeim Brent Toderian og Mariu Vassilakou sem hafa sett sitt mark á Vancouver og Vínarborg, sem eru iðulega tilnefndar í hóp lífvænlegustu borga í heimi.

Samkeppnin er í tveimur þrepum og verður nafnleyndar gætt á þeim báðum. Gert er ráð fyrir að allt að fimm teymi verði valin til að þróa tillögur á öðru þrepi.  Greidd verður 50.000 evru þóknun fyrir vinnu á öðru þrepi og að auki veitt verðlaun að upphæð 50.000 evrur fyrir hlutskörpustu tillöguna.

Stefnt er að því að samkeppnin hefjist í næstu viku og að niðurstöður liggi fyrir í september. Í framhaldinu verður unninn rammahluti Aðalskipulags Reykjavíkur á grunni verðlaunatillögu í samkeppninni.