Nýtt deiliskipulag fyrir Norðurströnd, strandsvæðið milli Hörpu og Laugarness er í vinnslu. Með deiliskipulagstillögunni er verið að festa í sessi núverandi stíga, listaverk og áningarstaði við strandlengjuna og tryggja að útsýni og sjónlínur frá svæðinu út á sundin og til fjalla haldist óskert. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti að afgreiða tillöguna í auglýsingu á fundi sínum í morgun.
Norðurströnd Reykjavíkur er mikilvægt útivistarsvæði og samgönguæð fyrir sjálfbæra ferðamáta. Útsýni yfir sundin til eyja og Esjunnar er aðdráttarafl og meðfram strandlengjunni eru áningarstaðir, listaverk og útsýnisstaðir. Samkvæmt tillögunni verður heimilt að koma fyrir listskreytingum sem falla vel að umhverfinu. Jafnframt felst í henni sameining þriggja deiliskipulagsáætlana sem fyrir eru á svæðinu.
Markmið skipulagsins
- Tryggja öryggi með bættum sjóvörnum við norðurströndina og vernda innviði.
- Styðja við sjálfbærar samgöngur með vönduðum stofnstígum.
- Tryggja góð tengsl borgarbúa og vegfarenda við hafið með óskertum sjónlínum yfir sjávarflötinn og styrkja náttúrupplifun á strandsvæðinu.
- Stuðla að vistvænni hönnun.
- Gert ráð fyrir meiri gróðri.
Sjóvarnargarður lagfærður
Þá er gert ráð fyrir að lagfæringar fari fram á sjóvarnargarðinum. Í stað þess að garðurinn verði hækkaður er stefnt á að hann verði breikkaður út í sjó þar sem þess er þörf, með sambærilegum hætti er nú þegar hefur verið gert við Eiðsgranda og Ánanaust.
Bætt öryggi við Sólfarið
Samkvæmt tillögunni verða bílastæði við Sólfarið lögð niður ásamt því að staðsettur verður áningarstaður til móts við Kringlumýrarbraut, og hjólastígur sveigður í kringum hann. Það er meðal annars til þess að bæta öryggi á þessum fjölfarna stað.
Meiri gróður
Gert er ráð fyrir að gróður verði meira áberandi á svæðinu. Gróðursvæðið verði byggt upp með líffræðilega fjölbreytni að leiðarljósi og stuðlað að fjölbreyttri gróðurþekju tegunda sem þrífast við sjávarsíðuna.
Strandsvæði samkvæmt aðalskipulagi
Nánari stefna um strandsvæði er sett fram í aðalskipulagshefti B2. Græna borgin en þar segir meðal annars: „Á strandsvæðum borgarinnar er gert ráð fyrir útivistariðkun og mannvirkjagerð af ýmsum toga sem tengist nýtingu svæðanna til útivistar og afþreyingar sérstaklega þeirri sem tengist útivistariðkun við sjó s.s. siglingar, bað- og sjósundsaðstöðu. Einnig má gera ráð fyrir veitingaaðstöðu og veitumannvirkjun á strandsvæðum.“
Tillagan verður formlega auglýst á næstunni. Íbúum gefst tækifæri til að koma með ábendingar á auglýsingatíma.