Nuuk og Þórshöfn fá jólatré að gjöf

Mannlíf Menning og listir

""

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að færa íbúum í höfuðborgunum Þórshöfn í Færeyjum og Nuuk á Grænlandi, íslenskt jólatré að gjöf. Þetta er í fyrsta sinn sem næstu grönnum í vestri er gefið jólatré og vill borgin með því undirstrika vinasamband þessara samfélaga.

Þetta er í fyrsta sinn sem  næstu grönnum í vestri er gefið jólatré og var það fellt á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk í byrjun nóvember og er 10 metrar að hæð. Það hefur nú verið sett upp við Hans Lynge grunnskólann í Qinngorput hverfinu í Nuuk og mun Líf Magneudóttur, forseti borgarstjórnar, afhenda tréð við hátíðlega athöfn klukkan 16.30 í dag – 18.30 að íslenskum tíma. Asii Chemnitz Narup, borgarstjóri Nuuk, tekur við trénu og flytur einnig stutt þakkarávarp. Að því loknu verður kveikt á ljósunum á jólatrénu. Sungnir verða jólasöngvar á íslensku og grænlensku og gengið í kringum jólatréð.

Á morgun kl. 15:30 mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, afhenda íbúum í Þórshöfn í Færeyjum jólatré að gjöf frá Reykvíkingum við hátíðlega athöfn á Tinghúsvöllinum. Það verður í fjórða sinn sem  Þórshafnarbúar fá íslenskt jólatré að gjöf sem þakkarvott fyrir þá frændsemi og vináttu sem þeir hafa sýnt Íslendingum í gegnum tíðina.  Heðin Mortensen, borgarstjóri Þórshafnar, veitir trénu viðtöku fyrir hönd íbúa og sungin verða jólalög.
Jólatréð á Tinghúsvöllinum var höggvið á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk fyrr í mánuðinum.

Eimskip flutti jólatrén til Grænlands og Færeyja borginni að kostnaðarlausu. 

Á sunnudaginn verður síðan kveikt á jólaljósunum á Oslóartrénu á Austurvelli við hátíðlega athöfn venju samkvæmt.  Það tré kemur einnig úr Heiðmörk en Osló er enn gefandi trésins. Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, veitir trénu móttöku en Erik Lunde borgarfulltrúi frá Noregi verður viðstaddur athöfnina og segir nokkur orð.