Rannsóknar- og þróunarverkefnið Sjálfbær starfsþróun kennara til að auka gæði náms og kennslu í íslensku og raungreinum með aðstoð myndupptakna í kennslustundum (SÆG), fór formlega af stað með tveggja daga vinnustofu 12. – 13. ágúst 2024.
Verkefnið er samstarf Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Sveitarfélagsins Múlaþings og er til tveggja ára. Verkefnið fékk styrk úr Menntarannsóknarsjóði og meginmarkmiðið er að þróa leiðir fyrir faglegt nám kennara um gæði kennslu, með notkun myndupptöku úr kennslustundum og markvissum greiningarramma þar sem unnið er að því að þróa og bæta kennslu á mið- og unglingastigi í íslensku, náttúrufræði og stærðfræði.
Tíu skólar í Reykjavík taka þátt
Þátttakendur í verkefninu eru samtals 32, frá Reykjavík eru 16 kennarar frá 10 skólum. Aðrir þátttakendur eru 6 kennarar frá Múlaþingi, starfsfólk sveitarfélaganna Reykjavíkurborgar og Múlaþingi og fræðafólk á Menntavísindasviði. Stjórnandi verkefnisins er Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor við Menntavísindasvið. Með niðurstöðunum fæst þekking á birtingarmyndum góðrar kennslu í náttúrufræði, íslensku og stærðfræði sem þátttakendur munu miðla til skólasamfélagsins.
Skólar í Reykjavík sem taka þátt:
· Árbæjarskóli (1 kennari í náttúrufræði)
· Breiðagerðisskóli (2 kennarar í íslensku)
· Fellaskóli (2 kennarar, í náttúrufr. og stærðfr.)
· Hagaskóli (2 kennarar, í náttúrufr. og stærðfr.)
· Hlíðaskóli (1 kennari í stærðfræði)
· Laugalækjarskóli (2 kennarar í stærðfræði)
· Lauganesskóli (1 kennari í stærðfræði)
· Melaskóli (1 kennari í náttúrufræði)
· Rimaskóli (2 kennarar í náttúrufræði)
· Selásskóli (2 kennarar í íslensku)