Náttúruborgin á Degi íslenskrar náttúru

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Reykjavíkurborg hefur gert bæklinginn Náttúruborgin  - stefna Reykjavíkur um líffræðilega fjölbreytni og kemur hann út á Degi íslenskrar náttúru, mánudaginn 16. september. „Ég vona svo sannarlega að þessi nýi bæklingur verði til þess að vekja fólk til umhugsunar um hversu lánsöm við erum og hvað við þurfum að gera til að varðveita þau lífsgæði sem eru hér allt í kringum okkur,“ segir Líf Magneudóttir formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar.

Reykvíkingar deila borg sinni með ótal lífverum, allt frá álftum til hunangsflugna og birkitrjám til kuðungakrabba. Innan borgarmarkanna finnast mörg sérstæð, verðmæt og viðkvæm vistkerfi, til dæmis leirur og þangfjörur sem eru mikilvæg búsvæði vaðfugla og sjávarhryggleysingja, straumvötn sem hýsa laxa- og silungastofna, mosavaxin hraun, mólendi og lundavörp í eyjum.

Líffræðileg fjölbreytni er lífsnauðsynleg fyrir afkomu okkar á jörðinni en enska hugtakið yfir hana er „biodiversity“. Þessi fjölbreytni er undirstaða náttúruauðlinda og mótar lífsgæði og hamingju, ekki síst í borgum þar sem náttúra getur verið af skornum skammti. Í stefnu um líffræðilega fjölbreytni eru skilgreind markmið og lykilverkefni sem miða að því að hlúa að líffræðilegri fjölbreytni - bæði innan og utan borgarmarka.

Hið byggða umhverfi er auðugt af lífi og borgarbúar eru í daglegu samneyti við lífverur til dæmis syngjandi garðfugla. Þá skiptir návist við gróskumikinn og skjólveitandi gróður borgarbúa miklu máli. „Við höfuðborgarbúar lifum og hrærumst í mikilli nánd við ótrúlega fjölbreytta og fallega náttúru sem okkur ber að hlúa að og vernda. Það eru mikil forréttindi að vera í nálægð við gróskumikið lífríki þar sem við getum endurnýjað orkuna okkar og fræðst um lífið og tilveruna og jafnvel kynnst okkur sjálfum upp á nýtt," segir Líf Magneudóttir

Fræða borgarbúa um líffræðilega fjölbreytni

Stefnan snýst um að rannsaka og vakta lífríki borgarinnar, vernda og styrkja náttúruna, vinna gegn hættum, fræða borgarbúa um líffræðilega fjölbreytni og huga að velferð hennar á alþjóðlega vísu. Einnig hefur verið unnin aðgerðaáætlun til tíu ára til að ná þessum markmiðum. Hún var samþykkt í borgarráði í mars 2017. 

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að kynna sér bæklinginn og sækjast eftir því að upplifa náttúruna í nágrenni sínu. Rannsóknir hafa sýnt að bætt aðgengi íbúa að grænum svæðum og aukin tækifæri til náttúruupplifunar auka andlega og líkamlega heilsu og bæta lífsgæði og hamingju almennt. Að festa græna innviði í hinu byggða rými í skipulagi er því grundvallaratriði.

Hægt er á nálgast bæklinginn á netinu og í prentútgáfu í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14 og Ráðhúsinu mánudaginn 16. september.

Tengill

Náttúruborgin  - stefna Reykjavíkur um líffræðilega fjölbreytni - bæklingur

Náttúruborgin  - stefna Reykjavíkur um líffræðilega fjölbreytni - heimasíða