Námsstyrkir á sviði umhverfis- og loftslagsmála í nafni Ellýjar Katrínar

Loftslagsmál Umhverfi

Ellý Katrín Guðmundsdóttir Magnús Karl Magnússon
Ellý Katrin

Árlegur námsstyrkur í nafni Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur lögfræðings og fyrrverandi sviðsstjóra og borgarritara var samþykktur í borgarráði í dag. Styrkurinn verður veittur einu sinni á ári í fimm ár fyrir meistararitgerð eða meistaraverkefni á sviði umhverfis-og/eða loftslagsmála. 

Í forgangi verði styrkir til verkefna eða ritgerða sem varða Reykjavíkurborg beint eða sveitarfélög almennt. Borgarráð samþykkti einnig reglur um námsstyrkinn. Styrkurinn verður greiddur af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Leiðtogi í loftslagsmálum

Ellý Katrín starfaði hjá Reykjavíkurborg í tæp 20 ár, fyrst sem sviðsstjóri Umhverfisstofu, svo sem sviðsstjóri umhverfis- og samgöngusviðs og loks sem borgarritari. 

Ellý Katrín var frumkvöðull á sviði umhverfis- og loftslagsmála hjá borginni. Hún leiddi samþættingu samgöngu- og umhverfismála og sinnti alþjóðastarfi borga í loftslagsmálum og leiddi í því samhengi verkefni sem opnuðu opnuðu nýjar víddir fyrir borgina í umhverfismálum. 

Í kjölfarið setti Reykjavíkurborg fram sín fyrstu markmið til þess að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Fjölmörg verkefni er varða sjálfbæra þróun voru unnin undir forystu Ellýjar, sem var samstarfsfólki sínu góð fyrirmynd og innblástur til góðra verka. 

Hún veitti mörg­um hug­rekki og inn­blást­ur þeg­ar hún ræddi op­in­skátt um reynslu sína af því að grein­ast með Alzheimer að­eins 51s árs göm­ul. Hún lést af völdum þessa sjúkdóms í sumar.

Styrkurinn veittur árlega

Styrkurinn verður veittur af borgarstjóra á fæðingardegi Ellýjar þann 15. september ár hvert í fimm ár, í fyrsta skipti árið 2025. Verðlaunafjárhæð er samkvæmt ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs hverju sinni í samræmi við fjárhagsáætlun. Auglýst skal eftir umsóknum um styrk fyrir 10. janúar ár hvert og skulu umsóknir berast umhverfis- og skipulagssviði fyrir 30. apríl á úthlutunarári.

Valnefnd er skipuð af umhverfis- og skipulagsráði til eins árs í senn.

Samþykkt borgarráðs