Nagladekkin hverfa á braut

Samgöngur Umhverfi

Blómatími

Tími nagladekkjanna er liðinn og rigning og hlýindi framundan á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er leyfilegt að vera á nagladekkjum eftir 15. apríl en þau slíta götum hratt, valda hávaða og loftmengun. 

Hlutfallið milli negldra og ónegldra dekkja var talið miðvikudaginn 17. apríl. Niðurstaðan var að hlutfallið skiptist þannig að 30% ökutækja var á negldum dekkjum og 70% var á öðrum dekkjum. 

Hlutfall negldra dekkja hefur því lækkað nokkuð frá síðustu talningu í mars en þá var það 38%. Það er þó töluvert hærra en á sama tíma í fyrra, þegar það var 20%. Fyrir tveimur árum var það einnig í kringum 20%, eða 20,9%. 

Hlutfallið sveiflast almennt til á þessum tíma árs og tími sumardekkja mótast veðri og færð þegar það styttist í Sumardaginn fyrsta. Mars og apríl hafa verið fremur kaldir á suðvesturhorninu en nú eru breytingar í lofti. 

Ekki er eftir neinu að bíða á höfuðborgarsvæðinu að kveðja naglana.

FÍB birtir árlega könnun yfir góð sumardekk, þar eru viðmiðin: Hemlun, veggrip, aksturstilfinning, flotun, veggnýr og núningsmótstaða.