Nagladekk eru ekki æskileg á götum borgarinnar
Nagladekk eru ekki æskileg á götum borgarinnar af mörgum ástæðum. Þau slíta malbikið verulega hratt og rekstrarkostnaður þeirra verður óþarflega mikill. Þau flýta fyrir djúpum raufum í malbikið. Nagladekk skapa hávaða sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að velja góð vetrardekk í staðinn. Nagladekk auka einnig eldsneytiskostnað bifreiða.
Nagladekk valda svifryksmengun
Nagladekk valda svifryki sem leggst í öndunarfæri og lungu fólks. Mikilvægt er því að draga úr hlutfalli slíkra dekkja á götum borgarinnar.
Dýpt mynsturs í hjólbörðum hefur til að mynda áhrif á hversu gott grip þeirra er. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða. Það dugar mjög vel í Reykjavík.
Það er ekki bannað að nota nagladekk frá 1. nóvember til 15. apríl árlega en það er ekki æskilegt. Reykjavíkurborg hvetur ökumenn til að hugsa sig tvisvar um áður en nagladekk fara undir bílinn og leita fremur að góðum vetrardekkjum.
Í vetrardekkjakönnun 2021 sem unnin er af NAF systurfélagi FÍB í Noregi kemur fram að ónegld vetrardekk eru algjörlega fullgildur kostur með tilliti til aksturseiginleika, hraða (grip), hemlunar, hávaða, rásfestu og aksturstilfinningar. Ein tegund af naglalausum dekkjum (Continental Viking- Contact 7) fær til dæmis hæstu heildareinkunn allra dekkja, negldra og ónegldra, og er með 91 stig í könnuninni.
Hér er frétt um nagladekk frá 2021 með ýmsum nytsamlegum upplýsingum.