Næsti áfangi á Hlemmtorgi hefst í vor

Borgarhönnun Framkvæmdir

Myndin sýnir Hlemm eins og hann verður

Mikil ánægja er með endurgert svæði frá Hlemmi – Mathöll að Snorrabraut en framkvæmdum þar lauk síðastliðið haust. Svæðið sunnan og austan mathallarinnar verður nú endurgert og tengt við endurgerða kaflann á Laugavegi, þar sem frá var horfið.

Hvað gerist næst?

Svæðið hefur verið skipulagt sem framtíðarsamkomustaður Reykvíkinga og allra landsmanna og með aðgengi fyrir öll, og akandi umferð verður beint frá torgsvæðinu. Umbreyting á Hlemmi er gerð í nokkrum áföngum. 

Á kaflanum frá Rauðarárstíg við Gasstöðina og yfir gatnamót Laugavegs og Rauðarárstígs þarf að skipta um lagnir og leggja nýtt yfirborð. Aðalinngangur í mathöllina á framkvæmdatíma verður norðanmegin. Stefnt er að því að þessum hluta framkvæmda á svæðinu ljúki sumarið 2025.

Akstur vélknúinna ökutækja verður ekki lengur á svæðinu en allt aðgengi fyrir íbúa og hagsmunaaðila og vörulosun verður tryggð.

Hvernig mun svæðið líta út?

Nýtt yfirborðsefni, setaðstaða, leik- og dvalarsvæði ásamt gróðri verða ríkjandi þættir á nýju Hlemmtorgi ásamt vistvænni nálgun á meðhöndlun yfirborðsvatns. 

Að framkvæmdum loknum verður svæðið sannkallað torgsvæði, ekki aðeins með auknum gróðri og dvalarrýmum heldur líka list. Klyfjahestur Sigurjóns Ólafssonar verður fluttur af sínum stað yfir á nýja svæðið nær mathöllinni. Þar verður einnig vatnsverk sem minnir á vatnsþróna sem áður var á Hlemmi. Þannig skapast betra og öruggara rými fyrir lifandi mannlíf. 

Strætóleiðir eftir framkvæmdir

Strætó gerir leiðakerfisbreytingar á meðan framkvæmdum stendur.

Endastöðvar sem í dag eru á Hlemmi færast til og akstursleiðir Strætó sem aka um Hlemm breytast. Reynt er að halda breytingunum í lágmarki en óhjákvæmilega munu notendur finna fyrir þeim. Akstursleiðir sem í dag eru um Laugaveg og Hlemm verða um Katrínartún og Borgartún, en akstursleiðir sem í dag eru um Rauðarárstíg og Hlemm færast á Flókagötu og Snorrabraut. Nýjar strætóstöðvar verða gerðar á Snorrabraut við Laugaveg og í Borgartúni við Bríetartún, til að bæta strætóstöðvar í nágrenni Hlemms. 

Strætó kemur því aftur síðar á Hlemm fyrir tilstuðlan Borgarlínu. Nánar má lesa um leiðakerfisbreytingar Strætó tengdar framkvæmdunum á heimasíðu Strætó.

Áhersla á góða upplýsingamiðlum

Reykjavíkurborg og Veitur standa fyrir framkvæmdunum. Hagsmunaaðilar, fyrirtæki og íbúar verða vel upplýstir. Allt verður gert til að hagsmunaaðilar og íbúar fyrir sem minnstum óþægindum, þótt það fylgi því alltaf álag að vera nálægt framkvæmdasvæði. Markmiðið er skýrt: betri borg og traustir innviðir.

Áhersla verður lögð á góða upplýsingamiðlun á tímabilinu.