Myndlistarsýning ungra mæðra í Gerðubergi

Gloria sýnir Hildigunni félagsráðgjafa verkin sín
Tvær konur skoða verkin á sýningunni.

Í Gerðubergi stendur nú yfir myndlistarsýning ungra mæðra undir nafninu Umhverfing. Allar eiga konurnar það sameiginlegt að hafa tekið þátt í TINNU sem er eitt af virkniúrræðum Reykjavíkurborgar. Sýningin er afrakstur vinnu og samveru þeirra í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi, þar sem þær hafa kynnst myndlistinni sem heilandi ferli undir handleiðslu myndlistarkennarans Fríðu Maríu Harðardóttur. Þar hafa konurnar komið saman reglulega, litið inn á við, hugleitt, skoðað náttúru og nærumhverfi sitt.

Styðja fjölskyldur með margþættum leiðum

TINNA er virkniúrræði fyrir einstæða foreldra en helsta markmið þess er að styðja fjölskyldur með margþættum leiðum og hjálpa foreldrum að auka lífsgæði sín og barna sinna. Í TINNU er boðið upp á dagskrá fjórum sinnum í viku og er hún af fjölbreyttu tagi. Má þar nefna ýmiss konar gagnlega fræðslu, sjálfsstyrkingu, jóga og listmálun. Um þessar myndir nýta 60 einstæðar mæður þjónustu TINNU en við úrræðið starfa fimm félagsráðgjafar. Ungir foreldrar í öllum hverfum Reykjavíkurborgar geta sótt um þátttöku í TINNU. Ráðgjafar á miðstöðvum Reykjavíkurborgar hafa milligöngu um það. 

Hjálpaði við að létta á huganum

Þær Gloria og Sunna Björg eru á meðal þeirra ungu mæðra sem eiga verk á sýningunni í Gerðubergi. Sunna hefur lengi haft áhuga á myndlist, var meðal annars á listabraut í FB en hafði lítið sinnt áhugamálinu á undanförnum árum. „Það var orðið langt síðan ég hafði dýft mér ofan í svona verkefni. Þegar ég var orðin fullorðin, komin með barn og farin að sinna öðrum hlutum í lífinu datt myndlistin niður hjá mér, svo ég hafði mjög gaman af því að taka þátt í þessari sýningu,“ segir hún. Hún segir það góðar og gefandi stundir að hitta aðrar mæður í fjölskyldumiðstöðinni. „Ég hef lært mjög mikið af þessu, við erum þarna hópur af mæðrum sem komum saman og höldum vel utan um hver aðra,“ segir Sunna. Í sama streng tekur Gloria. „Þetta er búið að vera ótrúlega gaman og hefur gefið mér mikið. Ég hef lært mikið af því að taka þátt í TINNU og það hefur hjálpað mér við að létta á huganum,“ segir hún.