Mikil aukning á heimilissorpi

Covid-19 Umhverfi

""

Magn úrgangs við heimili og þar með álag á sorphirðu Reykjavíkurborgar hefur aukist síðastliðna daga. Til að bregðast við þessu bætast við tveir bílar, einn frá Terra og annar frá Íslenska Gámafélaginu, sem munu aðstoða við hirðu á blönduðum úrgangi (gráu tunnurnar). Frá og með föstudegi geta borgarbúar búist við að sjá starfsmenn merkta þessum félögum taka sorp við heimili til viðbótar við starfsfólk sorphirðu borgarinnar.

Ástæða þessarar aukningar er sú að borgarbúar eru bæði margir komnir í fjarvinnu og almennt er fólk meira heimavið á tímum samkomubanns og breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Til að hægt sé að tryggja órofna þjónustu við borgarbúa er mikilvægt að leggja áherslu á flokkun og huga að öðrum leiðum til að losa sorp ef tunnur fyllast.

Þar sem ekki hefur verið hægt að tæma sorp vegna umframmagns þarf að fjarlægja það og koma því í önnur ílát undir sama flokk eða á endurvinnslustöð Sorpu.

Reykjavíkurborg hefur áður sent leiðbeiningar um meðhöndlun sorps með tilliti til sóttvarna og er afar mikilvægt að fara eftir þeim til að forðast smithættu.

Reykjavíkurborg biðlar til íbúa að hafa eftirfarandi í huga

· Halda áfram góðri flokkun alls úrgangs og að nýta pláss í ílátum við heimili.  Kremja eða beygla fyrirferðarmikla hluti til að nýta plássið betur.

· Ekki fylla tunnur af dóti sem fellur til við tiltekt. Mögulega má henda því seinna eða fara með á endurvinnslustöð.

· Ganga úr skugga um að ílát yfirfyllist ekki, því þá er ekki hægt að tæma þau út af sóttvörnum. Þar sem ílát fyllast verða íbúar að huga að öðrum leiðum til að losna við úrgang og endurvinnsluefni.

· Af endurvinnsluefni kemur yfirleitt ekki lykt og því er hægt að geyma að fara með það út í tunnu þangað til ílát hafa verið tæmd.

· Endurvinnsluefni sem ekki kemst í tunnur er hægt að skila á grenndarstöðvar eða endurvinnslustöðvar.

Sorphirðudagatal Reykjavíkur má skoða hér.