Menningarnótt 2023

Menningarnótt

Stærsta afmælis- og borgarhátíð Reykjavíkur, Menningarnótt, verður haldin laugardaginn 19. ágúst. Segja má að hátíðin sé hápunktur sumarsins, þar sem fjölbreyttir viðburðir lita mannlífið í miðborginni frá morgni til kvölds.

Hátíðin er fyrir alla borgarbúa og gesti sem vilja taka þátt í hátíðinni og skemmta sér. Í ár verður Reykjavíkurborg 237 ára og Menningarnótt verður 28 ára og báðar hafa þær dafnað og vaxið í áranna rás.

Fjölbreytt dagskrá

Dagskráin í ár er sérstaklega fjölbreytt og menningarleg allt frá stórtónleikum, dans, vöfflukaffi og listsýningum. Það er orðin hefð hjá mörgum fjölskyldum og vinahópum að mæla sér mót á Menningarnótt og eiga skemmtilegan dag saman.

Menningarnótt verður sett við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum kl. 12.00. Hljómsveitin Langi Seli og Skuggarnir leika af sinni alkunnu spilagleði og dansarar frá Happy Studio fá gesti út á dansgólfið með sér. Í kjölfarið mun Listasafn Reykjavíkur bjóða gestum inn á Kjarvalsstaði á sýningaropnun þar sem sýningin Myndlistin okkar verður opnuð formlega í vestursal safnsins. Sýningin er afrakstur kosningar þar sem fólki gafst tækifæri til þess að velja listaverk úr safneigninni. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá á Listasafni Reykjavíkur og Borgarsögusafni og er ókeypis aðgangur.  

Vestmannaeyjar heiðursgestur Menningarnætur

Að venju er heiðursgesti boðið að taka þátt í Menningarnótt með skemmtidagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur. Heiðursgestur í ár er Vestmannaeyjabær, en eins og kunnugt er eru fimmtíu ár liðin frá goslokum. Eyjamenn ætla að halda uppi sannkallaðri þjóðhátíðarstemningu í Tjarnarsalnum frá klukkan 13-17 og verða með hvítt tjald og bjóða upp á bakkelsi og tónlistardagskrá. 

Eftir nokkurra ára hlé verður sú skemmtilega hefð endurvakin þar sem íbúar í Þingholtunum bjóða gestum og gangandi í vöfflur og kaffi á milli kl. 14:00 og 16:00 á Menningarnótt. Götubitinn verður í Hljómskálagarðinum þar sem 16 matarvagnar verða á staðnum og bjóða fjölbreytt úrval af gómsætum réttum. Gestir og gangandi geta þrætt tónleika, bæði á skemmtistöðum og hjá íbúum, veitingastaðir, kirkjur og verslanir hafa farið sparifötin og bjóða til veislu.

Tónaflóð Rásar 2 verður á Arnarhóli og svo Tónlistarveisla Bylgjunnar í Hljómskálagarðinum. Moment dansveisla DJ Margeirs sér svo um stuðið á Klapparstíg að venju.

Menningarnótt lýkur svo klukkan 23.00 með flugeldasýningu sem fylgjast má með frá Arnarhóli og víðar.

Aðgengi og öryggismál

Af öryggisástæðum verður miðborgin lokuð fyrir akandi umferð frá kl. 07.00 um morguninn og fram yfir miðnætti svo gangandi vegfarendur geti notið dagskrárinnar og eru gestir hvattir til að koma fótgangandi eða hjólandi í miðborgina eða með almenningssamgöngum. Strætó mun auka tíðni og farþegar borga samkvæmt gjaldskrá. Allar nánari upplýsingar um áætlun strætó má finna á straeto.is

Strætóskutlur aka frítt til og frá bílastæðum við Laugardalshöll um Borgartún að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi frá kl. 07.30–01.00.

Klukkan 22.30 verður leiðakerfi strætó rofið og allir vagnar fara að Sólfarinu við Sæbraut til að ferja fólk heim. Frítt er í strætó á meðan eða frá 22.30 til 01.00. Keyrt verður í öll hverfi borgarinnar.

Í samráði við rafskútufyrirtækin verður aðeins hægt að leggja rafskútum á ákveðnum svæðum á hátíðarsvæði Menningarnætur.

Gleðilega hátíð!

Allar nánari upplýsingar um dagskrá má nálgast á menningarnott.is