No translated content text
Ferðavenjur Íslendinga voru kannaðar 6. október til 30. nóvember 2022 og var Reykjavíkurskýrslan kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í dag, 20. september. Síðasta ferðavenjukönnun var gerð í október og nóvember 2019.
Meðalfjöldi ferða borgarbúa lækkar úr 3,9 ferðum á dag árið 2019 í 3,2 ferðir. Ástæðan er margþætt en hægt er að geta sér til um að verslun, afgreiðsla banka, póstsins og fleiri aðila fari meira fram á netinu en áður. Fólk í fjarvinnu að heiman ferðast ekki minna en fólk sem fer til vinnu sinnar á vinnustaði.
Notkun á einkabílnum dregst saman á milli ára
Notkun á einkabílnum dregst saman á milli ára og er um marktæka breytingu að ræða. Ferðir á reiðhjóli og í Strætó standa í stað en ferðum á tveimur jafnfljótum fjölgar. Notkun rafhlaupahjóla mælist í 2% ferða en slík hjól eru til á a.m.k. 18% heimila Reykvíkinga.
Áhugavert er að skoða niðurstöður eftir aldurshópum. „Einkabíllinn er mest notaður í ferðir hjá þeim sem eru 55-64 ára, eða í 80% ferða“. Reiðhjólið er mest notað hjá fólki á aldrinum 26-34 ára, ef frá eru skilin börn 6-12 ára. Börn á aldrinum 6-12 ganga oftar en áður. Það ásamt því að ferðum á hvern borgarbúa fækkar, og að þessi hópur fer í færri tilfellum sem farþegi í einkabíl milli staða, sýnir að börnum sé sjaldnar skutlað á milli staða.
Börn á aldrinum 6-12 ganga oftar en áður
36% borgarbúa nota strætó að einhverju leyti en hann er mest notaðar af fólki á aldrinum 13-17 ára. Hér má því greina sóknarfæri fyrir Strætó. Í því samhengi má hugsa sér að samþætta enn betur ferðir farnar á reiðhjóli og í Strætó.
Könnun þessi vekur athygli á tækifærum en og vekur einnig spurningar sem hægt er að finna svör við, til dæmis hvernig fjölga má ferðum á reiðhjólum eða rafhlaupahjólum, hvernig mætti stuðla að því að fleiri fjölbreytta ferðamáta allt árið.
Vísbendingar eru um að æ fleiri séu að losa sig við annan bílinn. Heimili með tvo bíla eru fimm prósentustigum færri í þessari könnun en síðast þegar kannað var árið 2019. Að sama skapi eykst hlutfall heimila með einn bíl. Að meðaltali er einn og hálfur bíll á hverju heimili og 1,7 reiðhjól. Rafhlaupahjól og rafmagnshjól gætu verið góður kostur ef fækka á bifreiðum á heimilum.
Bíllausi dagurinn 22. september
Frítt verður í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og með landsbyggðarstrætó 22. september. Í samgönguviku 2023 er tilvalið tækifæri til að breyta út af vananum í dagsins amstri og rölta, hlaupa, hjóla, hoppa eða taka strætó í vinnu eða skóla. Líklega má finna nokkur tilboð hér og þar á bíllausa deginum, til dæmis fellir Hopp niður startgjald á rafskutlum.
Aldrei hafa til að mynda fleiri nýtt hjól sem ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu en í ágúst, samkvæmt hjólateljurum.
Helstu niðurstöður:
- Hver einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu ferðast að meðaltali 3,2 ferðir á dag, miðað við þessar niðurstöður. Þetta er lækkun frá 3,9 ferðum íbúa Reykjavíkur árið 2019.
- 67% ferða í Reykjavík eru farnar á bíl, þar af eru 55% ferða sem bílstjórar. Árið 2019 voru 71% ferða farnar í bíl og 2017 var hlutfallið 73%, þar af voru 57% ferða sem bílstjóri árið 2019 og 58% árið 2017.
- Fyrir höfuðborgarsvæðið eru 72% ferða farnar á bíl í dag, en var 75-76% árin 2019 og 2017. Ferðir farnar sem bílstjóri á höfuðborgarsvæðinu voru 58% af öllum ferðum í þessari könnun en voru 60-61% árin 2019 og 2017.
- Ferðum farnar fótgangandi í Reykjavík hefur fjölgað úr 16% árin 2017 og 2019 í 18%, þrátt fyrir innkomu rafhlaupahjóla.
- Svipuð þróun á höfuðborgarsvæðinu, hlutfall ferða farnar fótgangandi hefur aukist í 15% nú úr 14% árin 2019 og 2017.
- Hlutfall ferða í Reykjavík farnar með Strætó er 6%, sem er það sama og árið 2019.
- Bílum á heimili virðist vera að fækka. Í Reykjavík hækkar hlutfall heimila með 1 bíl um 5% stig og hlutfall heimila með 2 bíla minnkar um 5% stig. Hlutfall heimila í Reykjavík með annan fjölda bíla stendur í stað.
- Á höfuðborgarsvæðinu hækkar hlutfall heimila með einn bíl um 6% stig, hlutfall heimila án bíla hækkar um 1% stig meðan hlutfall heimila með 2 bíla minnkar um 5% stig og heimila með 3 bíla eða 4 bíla og fleiri minnkar um 1% stig hvert.