Með bros á vör í Krafti og Vítamíni

""

Kraftur í KR og Vítamín í Val er yfirskriftin á bráðskemmtilegu verkefni í heilsueflingu eldri borgara. Verkefnið er samvinna milli íþróttafélaganna og félagsstarfs velferðarsviðs í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum.

Kraftur í KR er í samstarfi við félagsmiðstöðina á Aflagranda 40 og í boði er leikfimi alla mánudaga í KR-heimilinu klukkan 10:30. Sjúkraþjálfun Reykjavíkur sér um leikfimina og hún hentar bæði þeim sem geta æft standandi og sitjandi.  Áhugasamir geta mætt í KR-heimilið en svo er líka rúta frá Aflagranda 40 klukkan 10:15 og á Grandavegi  klukkan 10:20.

Vítamín í Valsheimilinu er alla fimmtudaga kl. 10.00-11.15. Þar er líka hægt að taka rútu sem fer fyrst frá í Lönguhlíð klukkan 9.30 og fimm mínútum síðar er hún í Bólstaðarhlíð og að lokum stoppar hún á Vitatorgi. Það er  Sólveig Þráinsdóttir, sjúkraþjálfari sér um göngu og leikfimi í Valsheimilinu. Sólveig Þráinsdóttir, sjúkraþjálfari, segir þetta ekki bara snúast um hreyfingu heldur líka fíflast og hafa gaman saman.

Verkefnið er öllum opið en það er félagsstarfið í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum sem hrindir því úr vör ásamt íþróttafélögum hverfanna. Verkefnið er sprottið út frá skýrslu starfshóps um heilsueflingu aldraðra. Hópurinn leitaði leiða til að auka virkni eldra fólks í þeim tilgangi að stuðla að farsælli öldrun og aldursvænni borg.  Ellert B. Schram, fulltrúi Félags eldri borgara í Reykjavík, var formaður hópsins sem einnig var skipaður fulltrúum frá Reykjavíkurborg, öldungaráði Reykjavíkurborgar og Félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA).

Að sögn þeirra sem standa að opinni heilsueflingu fyrir aldraða hjá íþróttafélögum KR og Vals fer verkefnið vel af stað. Þátttaka hefur verið framar vonum og ef fer sem horfir mun mögulega einhver heilsuefling fyrir  aldraða verða í boði hjá öllum íþróttafélögum borgarinnar.

Samstarfsaðilar verkefnisins í KR og Val eru Hreyfistjórar heilsugæslunnar en þau nýta þetta á hreyfiseðlana sína og bjóða fram aðstoð ef á þarf að halda. Háskólinn í Reykjavík, Lýðheilsudeild, er í samstarfi við okkur  en þriðja árs nemar koma og útfæra ýmsa heilsueflingu í samstarfi við Milan prófessor við HR  í heilsueflingu eldra fólks. ÍSÍ. Öldungaráð ÍSÍ leggur fram stuðning eftir getu.