Maturinn heim þrisvar í viku
Frá og með 2. október næstkomandi verður hádegismaturinn frá framleiðslueldhúsinu á Vitatorgi sendur heim þrisvar í viku en ekki daglega líkt og verið hefur. Breytingin felur í sér margvíslegt hagræði en hefur engin áhrif á gæði matarins eða fjölda máltíða.
Í dag er hádegismaturinn eldaður í framleiðslueldhúsinu á Vitatorgi og þvínæst hraðkældur. Þannig er hann geymdur þar til hann er hitaður aftur í heimahúsi og borinn þar fram. Maturinn geymist í kæli í allt að fimm daga.
Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður framleiðslueldhússins á Vitatorgi, segir þetta jákvætt skref, hvort sem er fyrir borgina, viðskiptavini eða umhverfið. „Með þessu náum við fram hagræði í rekstri eldhússins. Fyrir flesta viðskiptavini okkar tel ég að það verði líka þægilegra að þurfa ekki að taka á móti sendingu á hverjum degi,“ segir Eyjólfur. Fólk fái þó máltíð fyrir hvern dag, það eina sem breytist sé að ekki þarf að taka á móti sendingu daglega. Hafi viðskiptavinir af einhverjum ástæðum þörf fyrir að taka á móti mat daglega verði hins vegar hægt að semja um það sérstaklega. „Að senda matinn heim daglega var nauðsynlegt á þeim tíma þegar við sendum matinn heitan í hús. Í dag er þetta óþarfi, þar sem maturinn er sendur út kaldur og hitaður í heimahúsi,“ segir Eyjólfur.
Eftir sem áður er hádegismatur borinn fram alla virka daga í félagsmiðstöðvum Reykjavíkur sem staðsettar á sautján stöðum víðs vegar um borgina. Á Vitatorgi er opið alla daga vikunnar.
Hagstæðara og umhverfisvænna að nýta hverja bílferð betur
Rekstur framleiðslueldhússins á Vitatorgi er umfangsmikill en þar er að meðaltali búnar til um þúsund máltíðir á dag. Rekstur og þjónusta framleiðslueldhússins er í stöðugri þróun. Þannig var til að mynda á síðasta ári aukið verulega við grænmetiskost og geta nú viðskiptavinir valið á milli grænmetisfæðis og hefðbundins fæðis. Það er í takti við breyttar kröfur neytenda.
Einnig er mikil krafa um aukna umhverfismeðvitund og hefur verið brugðist ákveðið við því. Hefur meðal annars öllum hreinsiefnum og sápum verið skipt út fyrir umhverfisvottuð efni, servíettur og annar pappír er umhverfisvottaður, búið er að hagræða í innkaupum og fylgst er vel með matarsóun. Þeir matarafgangar sem falla til eru nýttir til moltugerðar sem síðan er notuð innan borgarlandsins til ræktunar. Einnig er reynt að koma í veg fyrir sóun af hvaða tagi sem er. „Það er bæði hagstæðara og umhverfisvænna að nýta hverja bílferð betur,“ segir Eyjólfur.