Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2020

Mannréttindi Mannlíf

""

Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar voru afhent á opnum fjarfundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á alþjóðlegum degi mannréttinda í dag 10. desember 2020.

Yfirskrift fundarins var Mannréttindi á tímum Covid19 og flutti Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands erindi um heimilisofbeldi á tímum Covid19 og  og Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur fjallaði um geðheilsu barna og ungmenna á tímum Covid19.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2020 og komu þau í hlut:

Solaris - hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi

Hjálparsamtökin eru öflugur málsvari í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, bæði einstaklinga og barnafjölskyldna.  Í umsögn valnefndar segir:

Samtökin hafa reynst einstaklega öflugur málsvari í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, bæði einstaklinga og barnafjölskyldna. Samtökin hafa stuðlað að mikilvægri vitundarvakningu um stöðu þessa viðkvæma hóps með eftirtektarverðum árangri. Mikilvægur hornsteinn í mannréttindabaráttu er að veita raddlausum hópi rödd. Samtökin hafa staðið öðrum framar í baráttunni fyrir réttlæti fyrir fólk á flótta, að grundvallarmannréttindi þeirra séu virt og að standa vörð um mannlega reisn þeirra. Samtökin hafa átt lykilþátt í því að koma í veg fyrir brottvísun fjölda barna á flótta og stuðlað að þörfum breytingum á löggjöf og stefnumótun til réttarbóta í málaflokknum. Sema Erla Serdar, formaður og stofnandi Solaris, tók til máls og þakkaði fyrir og sagði mannréttindaverðlaunin vera mikilvæga viðurkenningu á starfi samtakanna.

Hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs

Veitt eru verðlaun fyrir þróunar- og nýbreytnistarf einstaklinga, borgarstofnana og fyrirtækja á sviði mannréttinda- og lýðræðismála fyrir verkefni sem þykja stuðla að auknu jafnræði, vinna gegn margþættri mismunun og leggja áherslu á jafna stöðu allra kynja. Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs afhenti þrenn hvatningarverðalaun ráðsins. Þau hlutu:

Brúarsmiðir  - Miðja máls og læsis

Starf brúarsmiða er ómetanlegt í að byggja brú milli menningarheima og styðja við foreldra af erlendum uppruna. Að mati valnefndar er starf verkefnisins mikilvægt og felst í því að byggja brú á milli fjöltyngdra barna og foreldra þeirra, sem og starfsmanna skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Hlutverk þeirra er að styðja við íslenskunám barna af erlendum uppruna í leik- og grunnskólum og stuðla að því að börn fái viðeigandi stuðning og handleiðslu við sitt hæfi og jöfn tækifæri til náms. Störf þeirra auka jafnræði og vinna markvisst gegn jaðarsetningu og mismunun. Dröfn Rafnsdóttir, deildarstjóri verkefnisins hjá skóla- og frístundasviði, tók við verðlaununum fyrir hönd verkefnisins.

Tæknilæsi fyrir fullorðna

Nýsköpunarverkefni sem hefur stuðlað að mannréttindum eldra fólks með því að auka rafrænt aðgengi þeirra að samfélaginu.  Í umsögn valnefndar segir að verkefnið sporni gegn einangrun og einmanaleika sem og stuðli að auknu sjálfstæði og valdeflingu einstaklingsins. Verkefnið sé til þess fallið að vaxa og dafna og festa sig í sessi sem reglulegur hluti af starfi félagsmiðstöðva borgarinnar. Rannveig Ernudóttir, tók við verðlaununum fyrir hönd verkefnisins Tæknilæsi fyrir fullorðna - velferðarsvið félagsstarf fullorðinna. 

Vettvangs- og ráðgjafarteymi (VoR)

VoR teymið er færanlegt vettvangsteymi sem aðstoðar heimilislaust fólk. Í umsögn valnefndar segir að tilgangur VoR-teymis sé að aðstoða fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir og veita einstaklingsmiðaða aðstoð, stuðning og ráðgjöf auk þess að miðla upplýsingum um þá þjónustu sem er í boði. Teymið starfar m.a. með fólki í gistiskýli, Konukoti, smáhúsum og í íbúðum um hugmyndafræði Húsnæði fyrst. VoR-teymið er skipað þverfaglegum hópi sérfræðinga sem vinnur að forvörnum og á samstarf við ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum borgarinnar og bregst við aðstæðum þegar á þarf að halda. Teymið veitir einnig ákveðnum hópi fólks í sjálfstæðri búsetu stuðning og ráðgjöf í anda hugmyndafræðinnar um Húsnæði fyrst.  Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, tók við verðlaununum fyrir hönd Vettvangs- og ráðgjafarteymi (VoR), deildar um málaflokk heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. 

Ellen Calmon, fulltrúi í mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði afhenti verðlaunahöfunum viðurkenningarskjöl og blómvönd.

Reykjavíkurborg óskar verðlaunahöfum til hamingju.