Veitur og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samstarfssamning um að Veitur verði aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í Reykjavík næstu þrjú árin 2024-26. Hátíðin fer fram dagana 1. – 3. febrúar næstkomandi.
Vetrarhátíð í Reykjavík var fyrst haldin árið 2002 og hefur markmiðið með hátíðinni verið frá upphafi að lýsa upp skammdegið og bjóða íbúum og gestum borgarinnar að upplifa einstaka stemningu í borginni. Vetrarhátíð er haldin á höfuðborgarsvæðinu og taka öll sex bæjarfélögin þátt. Sundlauganótt og Safnanótt eru meginstoðir hátíðarinnar ásamt ljóslistaverkum sem lýsa upp skammdegið.
Samkeppni um ljóslistaverk fyrir Vetrarhátíð 2024
Reykjavíkurborg og Veitur hafa blásið til samkeppni um ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2024. Markmið samkeppninnar er að virkja íslenskt hugvit og nýsköpun sem styður við skapandi og lifandi borg.
Umsóknarfrestur er til og með 20. desember 2023.
Samkeppnin er opin öllum, myndlistar-, tónlistar og ljóstæknifólki, tölvunarfræðingum, ljósvistarhönnuðum eða öðrum þeim sem vinna með rafmagn, ljós og list í einhverju formi. Hægt er að koma með tillögu að staðsetningu eða fá ráðgjöf frá skipuleggjendum. Kostur er ef verkið er gagnvirkt og/eða innsetning í almannarými borgarinnar. Horft er til frumleika og má nota ýmiss konar efni til verksins. Hafa skal í huga að hátíðin fer fram utandyra að vetri til og er mikilvægt að tillagan taki mið af því.
Tvö verk hljóta styrk að upphæð 1.000.000 krónur hvort. Upphæðin er hugsuð bæði til framkvæmdar verksins svo og þóknunar listafólks. Stuðningur Veitna rennur að öllu leyti til listafólks sem verður fyrir valinu.
„Það er einstaklega ánægjulegt fyrir okkur í Veitum að taka þátt í Vetrarhátíð og styrkja gerð ljóslistaverka sem lýsa upp myrkasta skammdegið. Við vinnum með rafmagn á hverjum degi og það er beinlínis okkar hlutverk að tryggja hverju heimili rafmagn og að komandi kynslóðir búi við slík lífsgæði. Það var einmitt gamla rafstöðin í Elliðaárdal sem lýsti á sínum tíma leiðina til framtíðar, þegar hafið var að virkja Elliðaárnar til að framleiða rafmagn. Við hlökkum til Vetrarhátíðar og samstarfsins við Reykjavíkurborg og hvetjum sem flest listafólk til að taka þátt í samkeppninni,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.