Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar 2022

Heilsa

Góður sumardagur í Nauthólsvík í Reykjavík Ragnar Th. Sigurðsson
Borgarbúa við leik í Nauthólsvík

Fleiri fullorðnir meta andlega heilsu sína slæma, ungmenni drekka minna áfengi en sofa ekki nóg, og borgarbúar hafa gott aðgengi að grænum svæðum nálægt heimilum sínum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Lýðheilsuvísum Reykjavíkurborgar 2022 sem hafa verið birtir á vef borgarinnar.

Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar eru birtir árlega og voru fyrst birtir árið 2019. Hægt er að nálgast þá á vef borgarinnar: https://www.reykjavik.is/lydheilsa

Meðal þess sem kemur fram í Lýðheilsuvísum Reykjavíkurborgar 2022:

  • Fleiri fullorðnir sem meta andlega heilsu sína slæma og það er stigmögnun í hópi þeirra sem upplifa einmanaleika. Samhliða þessu eru færri sem upplifa sig hamingjusama. 
  • Fjölgar í hópi ungmenna í 8-10. bekk sem sofa minna en 7 klst. á nóttu.
  • Færri ungmenni í 10. bekk sem hafa orðið drukkin síðustu 30 daga. 
  • Rúmlega helmingur framhaldsskólanema sem drekka orkudrykki daglega.
  • 99,8% íbúa Reykjavíkur hafa aðgengi að grænum svæðum innan við 300 m frá heimili sínu.

„Þeir vísar sem dregnir eru fram að hvert ár eru mismunandi en við val á þeim er sjónum beint að áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna,“ segir Harpa Þorsteinsdóttir verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjavíkurborg. Hún segir það áhyggjuefni hversu stór hluti íbúa upplifir andlega og líkamlega heilsu sína slæma og það er ákveðin stigmögnun í hópi þeirra sem upplifir einmanaleika. „Við þurfum að bregðast við þessu. Það er mikilvægt fyrir okkur sem störfum að heilsueflingu og forvörnum að skoða vel hvernig ákveðnir þættir eru að þróast og vísarnir gefa okkur grunnhugmynd að því hvernig samfélagið er að þróast út frá þeim gögnum sem hefur verið safnað.“