Reykjavíkurborg hefur sett sér metnaðarfull markmið til næstu ára um að bæta loftgæði í borginni og vill hvetja íbúa til að taka þátt í þeirri vegferð. Eitt af fyrstu og mikilvægustu skrefunum er að draga verulega úr notkun nagladekkja, sem spilar stóran þátt í slæmum loftgæðum, sérstaklega yfir vetrartímann. Nú á næstu vikum flykkjast borgarbúar með bíla sína á dekkjaverkstæði til að undirbúa sig fyrir veturinn, en mikilvægt er að vanda valið á dekkjum.
Slæm áhrif nagladekkja á loftgæði
Nagladekk, sem eru algeng yfir vetrarmánuðina, valda miklu sliti á malbiki sem leiðir til losunar svifryks í andrúmsloftið. Svifryk, fínar agnir sem myndast við slíkt slit, hafa bein áhrif á loftgæði og heilsu borgarbúa, sérstaklega þeirra sem þjást af öndunarfærasjúkdómum. Á undanförnum árum hefur bílum á götum borgarinnar fjölgað og loftgæði í Reykjavík versnað umtalsvert þegar notkun nagladekkja er mest, og því er mikilvægt að leita lausna.
Vissir þú að naglar hjálpa ekki í snjó?
Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í dekkjaframleiðslu og þá sérstaklega á vetrardekkjum án nagla. Naglar í dekkjum hjálpa ekki til við akstur í snjó heldur aðeins við ákveðin skilyrði við ísingu á götum. Utan við svifryksmyndun og slæm loftgæði, valda nagladekk miklu sliti á götum sem eykur viðhald og kostnað. Dekkin stórauka umferðarhávaða og auka þannig ónæði fyrir íbúa. Þá eyða bílar á nagladekkjum meira eldsneyti. Þess vegna mælir Reykjavíkurborg frekar með góðum ónegldum dekkjum undir borgarbílinn.
Aðrar aðgerðir til að bæta loftgæði
Hlutfall nagladekkja á götum borgarinnar spilar stóran þátt í slæmum loftgæðum. Hins vegar hefur Reykjavíkurborg innleitt fjölmargar aðrar aðgerðir til að ná fram markmiðum sínum um betri loftgæði, t.d. aðgerðir til að minnka útblástur, auknir innviðir fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur, uppsetningu loftgæðamæla o.fl.
Markmið Reykjavíkurborgar er að fækka nagladekkjum í umferðinni og bæta loftgæði til frambúðar með fjölbreyttum aðgerðum. Með þátttöku íbúa vonast borgin til að skapa hreinna og heilnæmara umhverfi fyrir öll.
Gerum þetta saman – loftgæði eru lífsgæði!