Ljósin tendruð á Oslóartrénu- gleðilega aðventu!

Mannfjöldi á Austurvelli þegar það er nýbúið að kveikja á Oslóartrénu.

Nú er hátíðarstemmningin svo sannarlega komin í Reykjavík því í dag, á fyrsta sunnudegi aðventu, voru ljósin á Oslóartrénu tendruð við hátíðlega athöfn á Austurvelli.

Mikill fjöldi lagði leið sína á Austurvöll til að fá jólastemmninguna beint í hjartastað og sagðist Dagur B. Eggertsson borgarstjóri glaður að sjá svo marga samankomna á þessum hátíðlega viðburði sem nú er hægt að halda með hefðbundnum hætti í fyrsta sinn í þrjú ár.

Lúðrasveit Reykjavíkur og tröllið Tufti skemmtum gestum áður en athöfnin hófst og fluttu Sigríður Thorlacius og Valdimar síðan falleg jólalög ásamt hljómsveit. Þá stálust jólasveinar til byggða samkvæmt hefð til að syngja og skemmta viðstöddum. Katla Margrét Þorgeirsdóttir var kynnir og var dagskráin túlkuð á táknmáli. Þá er vert að taka fram að órói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra prýðir jólatréð.

Þótt jólatréð komi ekki lengur með skipi frá Osló, heldur sé sótt í Heiðmörk af umhverfisástæðum, ræktum við áfram vináttu frændþjóðanna og Norðmenn taka þátt í þessari hátíðlegu athöfn með okkur. Hinn 9 ára gamli norsk-íslenski Sander Snær Seim Sigurðsson aðstoðaði borgarstjóra við að tendra ljósin á trénu og þá afhenti Hallstein Bjercke, borgarfulltrúi frá Osló, borgarstjóra bókargjöf frá Oslóarborg en öll skólabókasöfn í Reykjavík fá einnig bækur að gjöf.

Á síðu jólaborgarinnar má sjá nánari upplýsingar um jólaviðburði á vegum Reykjavíkurborgar.

Takk fyrir komuna í dag og gleðilega aðventu!

Myndir frá hátíðarstemmningunni á Austurvelli