Glæsilegt sitkagreni mun prýða Austurvöll

Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson ásamt Birni Hrafnkellssyni við fallið tréð.
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson ásamt Birni Hrafnkellssyni við fallið tréð.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi í dag Óslóartréð, sem skreyta mun Austurvöll, á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk.

Borgarstjóri fékk aðstoð frá Sævari Hreiðarssyni, skógfræðingi og skógarverði, við að fella tréð í Heiðmörk. Tréð er glæsilegt 11.5 metra hátt sitkagrenitré sem er u.þ.b. 42 ára gamalt.  Tréð verður sett upp á Austurvelli fyrir næstu helgi en jólaljósin verða tendruð við hátíðlega athöfn sunnudaginn 27. nóvember nk. og tréð mun að venju lýsa upp Austurvöll yfir hátíðirnar.

Óslóartréð er fellt sem tákn um vináttu Óslóar og Reykjavíkur. Tréð var áður flutt með skipi frá Noregi en hefur sl. fimm ár verið fellt í Heiðmörk.  Það er helst af umhverfisástæðum sem tréð er nú höggvið hér á landi í samvinnu við Norðmenn en einnig vegna þess að í dag er af nógu að taka í þéttu skóglendi Heiðmerkur.

Sitkagreni á Tinghúsvöllinum

Jólatréð sem Reykjavík færir Þórshafnarbúum, sem vott um vináttu borganna, var fellt í Heiðmörk sl. mánudag og er nú komið um borð í skip Eimskipa á leið til Þórshafnar. Tréð er flutt í boði skipafélagsins til Færeyja. Það er 11 metra hátt sitkagrenitré  sem verður reist á Tinghúsvöllinum, torgi í miðborg Þórshafnar. Þar verða jólaljósin, líkt og hjá okkur, tendruð um næstu helgi en hjá þeim á laugardeginum 26. nóvember.  Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs verður við tendrun trésins fyrir hönd Reykjavíkurborgar.