Ljóðrænn rósagarður við Freyjugötu opnaður

Einar Þorsteinsson borgarstjóri opnaði Freyjugarð formlega

Freyjugarður,  sem er við Freyjugötu 19, var opnaður formlega í dag en í garðinum er hægt að eiga hugljúfa náttúrustund með ljóðrænu ívafi. 

Einar Þorsteinsson borgarstjóri opnaði þessa skemmtilegu skáldavin í borginni en nafnið Freyjugarður vísar til þess að garðurinn er tileinkaður íslenskum skáldkonum.

Verk fimm íslenskra skáldkvenna á staðnum

Í garðinum eru samtals fimm standar með tíu ljóðum eftir fimm íslenskar núlifandi skáldkonur. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fékk rithöfundinn Sigurbjörgu Þrastardóttur til liðs við sig sem fyrsta ritstjóra ljóðanna í garðinum. Skáldkonurnar sem voru valdar til þátttöku eru Alda Björk Valdimarsdóttir, Arndís Lóa Magnúsdóttir, Eva Rún Snorradóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Þóra Jónsdóttir. Skáldkonurnar mættu í garðinn auk dætra Þóru Jónsdóttur, þær Elín og Kirstín Flygenring sem mættu fyrir hönd móður sinnar. Börn frá leikskólanum Laufásborg komu óvænt á opnunina og sungu eitt lag við mikinn fögnuð viðstaddra.

Elín og Kirstín Flygenring, Alda Björk Valdimarsdóttir, Arndís Lóa Magnúsdótttir, Eva Rún Snorradóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Elías Rúni og Sigrún Úlfarsdóttir
Elín og Kirstín Flygenring, Alda Björk, Arndís Lóa, Eva Rún, Sigurbjörg, Elías Rúni og Sigrún.

Fyrir þau sem vissu ekki að þau væru ljóðaunnendur

„Það fer fram ákveðið innbyrðis samtal milli ljóðanna í garðinum en aðalatriðið er að ljóðin tali við vegfarendur. Markmiðið er að þau taki vel á móti vönum ljóðaunnendum en ekki síður þeim sem vissu alls ekki að þau væru ljóðaunnendur!

Þarna fer um fólk úr öllum áttum, á ýmsum aldri, og vonandi kveikja línurnar bæði tilfinningar og hugmyndir og verða jafnvel sumum hvatning til þess að lesa meira, skrifa upp á eigin spýtur eða í það minnsta íhuga nýjar hliðar hversdagsins,“ segir Sigurbjörg um ljóðin í garðinum.

„Skáldkonurnar eru á ýmsum aldri og hafa sýnt ljóðinu hollustu á ferli sínum, þetta er mjó sneið úr sívaxandi arfi íslenskra kvenna og skemmtilegt að eiga í þessu ágæta hverfi stað þar sem vöxtur bæði tungumáls og jurta glæðir hversdaginn lífi,”  bætir hún við.

Börn af leikskólanum Laufásborg sungu eitt lag við fögnuð viðstaddra
Börn af leikskólanum Laufásborg sungu eitt lag við fögnuð viðstaddra

Að franskri fyrirmynd

Hugmyndin að gerð Freyjugarðs kom upphaflega frá Sigrúnu Úlfarsdóttur hönnuði, sem árið 2021 kom að máli við Reykjavíkurborg með hugmynd að „skáldkonugarði" á svæði við Freyjugötu þar sem áður hafði verið leiksvæði var síðar breytt í setsvæði með borðbekkjum. Hugmyndin snerist um rósagarð að franskri fyrirmynd, þar sem skilti með ljóðum kvenna prýddi jafnframt garðinn.

Umhverfis- og skipulagssvið tók vel í þessa hugmynd og fannst hún henta vel í þennan garð við Freyjugötu. Sviðið setti hugmyndina í framkvæmd og lét hanna garðinn en endurhönnun var í höndum Landmótunar og Lisku. Garðurinn er nú búinn að lifna við en rósirnar eru komnar niður og skilti með ljóðum kvennanna upp en það var Elías Rúni, sem hannaði skiltin. Enn fremur er áberandi í garðinum skemmtilegt vegglistaverk unnið af Narfa Þorsteinssyni. 

Bókaskiptiskápur á staðnum

Í garðinum er einnig að finna bókaskiptiskáp, þar sem setja má bækur eða taka með, eftir þörfum og innblæstri gesta hverju sinni. Skápurinn er liður í þeirri hugmynd að garðurinn sé lifandi í orðsins fyllstu merkingu, og stendur hann opinn öllum, allan sólarhringinn. 

Möguleiki er á því í framtíðinni að skipta út ljóðum á stöndunum og má því búast við að sjá fleiri verk íslenskra skáldkvenna birtast í Freyjugarði.

Verið velkomin í Freyjugarð!