Líflegur kynningarfundur um uppbyggingu á Keldnalandi

Skipulagsmál

Keldnaland

Kynningarfundur um fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, er varða landnotkun og þróun byggðar í landi Keldna og nágrennis, var haldinn í liðinni viku. Framundan er uppbygging á nýju og vel tengdu íbúðahverfi í Reykjavík.  

Markmiðið er að á Keldnalandi rísi spennandi nútímahverfi sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi. Sýning á verðlaunatillögu FOJAB arkitekta um uppbyggingu í Keldnalandi hefur verið sett upp í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14, kl. 8:30-16:00 mánudaga til fimmtudaga og til 14:30 á föstudögum. Fundurinn í Grafarvogi var vel sóttur og hægt er að horfa á upptöku af honum.

Örfáir punktar af fundinum. 

Keldnaland  

  • Keldnaland verður vel tengt borgarhverfi, skipulagt með vistvænar samgöngur og gott aðgengi að grænum svæðum að leiðarljósi. Þetta er stórt þróunarsvæði, mjög vel staðsett og gert er ráð fyrir íbúðahverfum með 2-3 grunnskólum og allri nærþjónustu auk almenns atvinnuhúsnæðis. Uppbygging á Keldnalandi hefur verið áformuð um áratuga skeið, en þetta var land í eigu ríkisins frá gamalli tíð. Landið er mikilvæg viðbót á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins.

Náttúrufar:  

  • Í tillögunni er gert ráð fyrir votlendi og að unnið verði að því að leiða ofanvatn eftir lágpunktum um svæðið. Byggðin verður ekki nær Grafarvogi en núverandi byggð og skoðað verður í skipulagi hversu nálægt byggðin komi að Grafarlæknum. 
  • Ofar við Grafarlæk er Harðhausinn, forn jökulgarður. Á honum er bæjarhóllinn þar sem mikið er af minjum í jörðu og grafreitur. Þessar minjar eru aldursfriðaðar og verður ekki raskað og stóð heldur ekki til í tillögunni. 
  • Trjálundurinn Kálfamói þar austur af, er ræktaður af Jóhanni Pálssyni  fyrrverandi garðyrkjustjóra.  Þar eru fjölmargar tegundir trjáa og plantna sem eru ekki aðgengilegar í dag. Kálfamóinn mun einnig verða hluti af útivistarsvæði sem fellur að byggðinni. 
  • Milli nýrrar byggðar og núverandi Grafarvogshverfa verður útivistarsvæði sem tengist núverandi útivistarsvæðum, svo sem Kotmýri, Keldnaskyggni og Stóra-skyggni. 

Umræður á fundinum 

Fanný Gunnarsdóttir formaður íbúaráðs opnaði fundinn og lagði meðal annars áherslu á friðun strandlengjunnar sem nýtur nú hverfisverndar. Mikilvægt væri að huga að náttúru, göngu- og útivistartengingum. 

Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags kynnti verklýsingu aðalskipulagsbreytingar sem er fyrsta skrefið í ferlinu. Mat á umhverfisáhrifum af uppbyggingunni verður unnið í kjölfarið. Fyrirliggjandi tillaga gefur fyrirheit um að stækka opin svæði og græn svæði miðað við núverandi afmörkun byggingarlands. Keldur eru mikilvægt uppbyggingarsvæði til að mæta húsnæðisþörf, stuðla að stöðugra framboði íbúða, breidd í húsagerðum og fjölbreytileika búsetukosta. 

Hrafnkell Proppé sagði frá verkefninu og verðlaunatillögu FOJAB sem liggur til grundvallar. Samtalsferlið er að hefjast núna og þörf á speglun frá ýmsum hagaðilum. Þegar nýtt land er brotið er mikilvægt að huga að náttúruvernd og verndun menningarminja. 

Spurt og svarað

Íbúar á fundinum spurðu meðal annars um bílastæði í nýja hverfinu. Ekki er búið að ákveða endanlegan fjölda bílastæða. 

Spurt var um fráveitumál. Svarið er að unnið verði með Veitum að þeim. Guðlaugur Þór Þórðarson íbúi í Grafarvogi og ráðherra tók einnig til máls og sagðist vilja hafa friðlandið stærra en ráðgert er hvað náttúruvernd og menningarminjar varðar. 

Töluvert var spurt um efni sem fellur undir húsnæðisuppbyggingu í Grafarvogi. Því var svarað eins og færi gafst en það var ekki á dagskrá þessa fundar og er annað skipulagsmál sem fer í frekari kynningu síðar. Vegna óska á fundinum var ákveðið að framlengja frest til að senda athugasemdir við þá verklýsingu í skipulagsgátt til 1. nóvember. 

Talað var um mikilvægi grænna svæða í heild sinni. Lýst var yfir áhyggjum af læknum og að nauðsynlegt sé að gefa honum gott rými. Spurt var um votlendi og endurheimt votlendis og hvort gengið væri nærri náttúrunni út frá loftslagssjónarmiðum. 

Aðrir sem tóku til máls fyrir hönd Reykjavíkurborgar voru Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs, Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri samgangna og Þórólfur Jónsson deildarstjóri náttúru og garða.   

Skipulagsvinnan í Keldnalandi 

Skipulagsvinna í Keldnalandi stendur með öðrum orðum yfir ásamt kynningar- og samráðsferli en áformað er að því ferli ljúki í byrjun árs 2026. Verklýsing aðalskipulagsbreytingar hefur verið gerð aðgengileg á skipulagsgatt.is og gefst þar tækifæri til að skoða gögnin og koma með ábendingar en athugasemdafrestur er til 15. nóvember næstkomandi eftir að fresturinn var framlengdur. 

Þetta er stórt þróunarsvæði og lykilsvæði í húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík.