Hallgrímur Jón Hallgrímsson er yfirverkstjóri borgarskóga Reykjavíkurborgar en helstu skógarnir eru í Elliðaárdal, Öskjuhlíð og á Hólmsheiði. Hann er líka tónlistarmaður og segir að það að vinna við skógrækt og tónlist sé bæði listræn vinna. Eitt sinn var gróðursetningin mesta vinnan en nú grisjun líka stórt verkefni í skógræktinni til að bæta upplifun í útivistarskógum Reykvíkinga.
Áhrifavaldur í lífi Hallgríms var Jóhann Pálsson fyrrum garðyrkjustjóri sem var giftur systur föður hans. „Ég fór oft með honum í lystigarðinn á Akureyri og elti hann um garðinn. Hann var í grænu Fjallräven úlpunni sinni og mér fannst hann svo flottur. Hann stoppaði alltaf við tré og skoðaði laufin,“ segir Hallgrímur og bætir við að hann hafi alltaf fundið mikla ró í umhverfi sem þessu.
Öskjuhlíðin náttúrulegur leikvöllur
Foreldrar Hallgríms eru frá Akureyri en sjálfur ólst hann upp í Hlíðunum og þá var Öskjuhlíðin náttúrulegur leikvöllur barnanna, „spennandi ævintýrastaður“, þannig að hann þekkir mikilvægi gróðurs og skóga í borg af eigin raun.
Móðir hans var dugleg að kenna honum nöfnin á plötunum og einnig fór Jóhann oft með hann í Kálfamóa á Keldum þar hann var með ræktunareit og kenndi honum ýmislegt um plöntur þar. „Hann var alltaf til í að svara spurningum og útskýra ýmislegt um plöntur. Ástríðan var smitandi,“ segir Hallgrímur. Hann velti því gróðri heilmikið fyrir sér en þegar hann fór loks að vinna við garðyrkju ásamt vini sínum að hann fann að þetta gæti orðið eitthvað meira en áhugamál.
Leiðin lá í Garðyrkjuskólann á Reykjum þar sem hann kynntist fleira fólki með ástríðu fyrir trjám og plöntum og sjálfur sökkti hans sér smám saman dýpra í fræðin. Hann er enn að bæta við sig þekkingu og er sem stendur í skógfræðinámi við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Þarf þolinmæði í skógrækt
„Þetta er ekki bara vinna heldur ástríða,“ segir Hallgrímur sem hlakkar til að fara í vinnuna þegar hann vaknar á morgnana. „En skógur vex ekki á einum degi og þá er maður þakklátur fyrir þau sem á undan komu, fólk eins og Jóhann. Það þarf að sýna ákveðna þolinmæði í þessu starfi. Plöntur vaxa mis hratt og þú átt mögulega ekki eftir að sjá útkomuna í endanlegri mynd. Það þarf að hugsa fram í tímann og spá í hverjir eiga eftir að njóta skógarins.“
Hann útskýrir samt að í raun sé myndin aldrei algjörlega endanleg því umhirða skóga sé svo mikilvæg og þróun þeirra svo skógarnir nýtist almenningi. Reykjavík og Ísland allt sé að þroskast í skógræktinni. Víða er orðið langt síðan að skógi var plantað og þá getur skógurinn orðið þéttur og illfær. Einnig geti þurft að skipta út tegundum, til að mynda geta víðitegundir verið góðar í upphafi skógræktar því tegundin sé hraðvaxta og myndi skjól en þurfi svo að fella og leyfa öðrum tegundum að njóta sín.
„Núna erum við komin á þetta umhirðustig en það er mikilvægt að grisja. Það er gaman að labba inn í vel þroskaðan skóg og búa til birtu og rými fyrir næstu kynslóðir því ekkert gerist í skugga. Fólk vill dvelja í skóginum,“ segir hann og þess vegna þurfi að vera pláss fyrir gönguleiðir, leiksvæði, hreystibrautir og þess háttar. „Það þarf að gera skóginn aðlaðandi svo fólk geti notið hans,“ segir hann og bætir við að það sé tækifæri til að nýta skógana betur eins og til lautarferða eða annarrar upplifunar og leiks.
Mikilvægt að grisja og búa til pláss fyrir ný tré og tegundir
Hallgrímur segir að hann og starfsfólk hans verði stundum vart við að fólk botni ekki í af hverju það sé að fella tré en starf skógræktarfólks felst núna ekki síður í því að grisja en að gróðursetja. Líka er það öryggisatriði að fella tré við göngustíga, sem mögulega gætu klofnað í illviðri og valdið hættu. Hjá borgarskógum er einn hópur í að gróðursetja og annar í að grisja. Það er alltaf bæði í gangi, segir Hallgrímur.
Undanfarið hafa þau mikið verið að vinna í hólmanum í Elliðaárdalnum. „Við erum búin að vera að bæta við nýjum tegundum, taka tré sem eru búin og búa þannig til pláss fyrir ný. Við höfum verið að setja niður aðeins öðruvísi tré og höfum verið að spá í útlitið og fjölbreytnina,“ segir hann en á meðal þess sem litið er til varðandi tegundir eru blómgun, ber og haustlitir en skógur getur búið yfir mikilli fjölbreytni og hans er hægt að njóta allt árið.
Skógurinn er hringrás en það eru alltaf að koma inn nýjar kynslóðir. „Með grisjun erum við í raun bara að flýta ferli og taka þau tré sem munu falla á endanum,“ segir hann en trén sem fara virka ef til vill ekki nógu vel á þeim stað sem þau eru og fundin er önnur tegund sem nýtur sín betur í aðstæðunum.
Búa til betri upplifun
Skógar veita mikið skjól en þó getur þurft að fella tré til að birta til og í skjólinu sem hefur myndast fá nýjar tegundir tæifæri til að þrífast í þessum breyttu aðstæðum. Það gefi síðan breytta og skemmtilegri upplifun í göngutúrnum, besta upplifunin sé ekki alltaf að mæta dimmum vegg af barrtrjám þar sem vart er hægt að komast um.
Ekki er skrýtið að lögð hafi verið áhersla á Elliðaárdalinn því hann er vinsælt útivistarsvæði sem er á góðum stað í borginni og skógurinn nýtist mörgum. Þar hefur líka verið uppbygging með Elliðaárstöð sem dregur fleira fólk á svæðið.
Mikill skógur á Hólmsheiði
Annað svæði þar sem vaxinn er upp heilmikill skógur og er útivistarsvæði Reykvíkinga til framtíðar er Hólmsheiðin. Mikil vinna hefur verið lögð í gróðursetningu og ræktun og er hún að vaxa sem útivistarsvæði. „Flestir þekkja Heiðmörkina en færri átta sig á því hvað skógurinn er orðinn mikill á Hólmsheiði,“ segir hann.
Paradísardalur er einnig mikið notaður og skógurinn í kringum Rauðavatn en við vatnið voru stigin fyrstu skrefin í skógrækt á Íslandi fyrir rúmum hundrað árum.
Hann hefur áhuga á að koma upp trjásafni í borginni, þar sem hægt væri skoða ýmiss konar tré og fræðast, mögulega í samstarfi við aðra, en deild borgarskóga er nú þegar í góðu samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur og Skógræktarfélag Reykjavíkur.
Listræn vinna að vera í skógrækt
Hallgrímur er líka tónlistarmaður og er þekktur fyrir að vera trommari í hljómsveitinni Sólstöfum. Hann segi að að það að vera tónlistarmaður og í skógrækt fari ekkert sérstaklega vel saman tímalega séð en bæði störfin séu hins vegar listræn. „Fyrir mér er það listræn vinna að vera skógræktarmaður en það er allt öðruvísi en að vera í timburframleiðslu. Timburframleiðslumanneskjan fúnkerar ekkert sérstaklega vel í útivistarskógi,“ segir hann en til að sjá möguleikana í skóginum þarf ákveðna næmni og hugmyndaflug til að nýta tækifærin. Það þarf að „leikstýra“ skóginum því hann verður einsleitur ef öll tré eiga að vera í aðalhlutverki. Gefa verður tegundum rými til að anda og njóta sín.
Náttúran vinnur fyrir okkur
„Ég lít á vinnuna þannig að þú ert alltaf að reyna að líkja eftir náttúrunni, annars gætirðu alveg eins farið að rækta garð einhvers staðar. Í garðinum er manneskjan oftar en ekki að reyna að stjórna öllu en í skóginum erum við að reyna að láta náttúruna vinna fyrir okkur,“ segir hann en þá þarf einmitt að þekkja hvaða tegundir njóti sín í aðstæðunum.
„Við í ræktuninni eigum vissulega okkar uppáhalds tegundir en það þarf að setja þetta í samhengi við að við verðum ekki alltaf hérna til að njóta afrakstursins heldur erum að skapa inn í framtíðina. Það er ekki hægt að hugsa bara um sjálfan sig.“