Leitað til starfsfólks Reykjavíkurborgar í bakvarðasveit velferðarþjónustu
Reykjavíkurborg leitar nú til starfsfólks borgarinnar til að koma til liðs við bakvarðahóp Reykjavíkurborgar til tímabundinnar aðstoðar í velferðarþjónustu. Starfsstaðir á velferðarsviði eru að takast á við mönnunarvanda vegna COVID–19 vegna veikindafjarvista eða fjarvista starfsfólks sem er tímabundið í sóttkví. Fyrirsjáanlegt er að einhverjir starfstaðir gætu glímt við mikla manneklu af þessum sökum næstu 2 vikurnar.
Bakvarðahópurinn er skipaður starfsfólki sem getur hlaupið í skarðið og tekið tímabundið að sér önnur verkefni/störf til að tryggja lögbundna þjónustu og aðstoð á velferðarsviði. Starfsfólk skráir sig í bakvarðahópinn í samráði við sinn næsta yfirmann
Óskað er eftir fólki sem gæti starfað í þjónustu við fatlað fólk, á hjúkrunarheimilum, í heimaþjónustu og í þjónustu við heimilislausa. Verkefni sem um ræðir eru til að mynda leiðbeining og aðstoð til einstaklinga við athafnir dagslegs lífs, s.s. aðstoð við að klæðast og komst á fætur að morgni og í rúmið á kvöldin, aðstoð við að matast og aðstoð við heimilishald. Einnig er um að ræða félagsleg samskipti og aðstoð við afþreyingu. Reynsla af störfum í velferðarþjónustu er kostur en ekki alls ekki skilyrði. Fyrst og fremst er verið að leita eftir starfsfólki sem hefur áhuga og tök á að leggja verkefninu lið
Það starfsfólk sem tilbúið er að fara í önnur verkefni tímabundið heldur óbreyttum launakjörum nema það taki að sér starf sem almennt eru greidd hærri laun fyrir eða ef vinnuframlag er umfram hefðbundna vinnuskyldu. Þetta getur átt við í þeim tilvikum þar sem starfsfólk vinnur í hærra starfshlutfalli eða sinnir kvöld- eða helgarvöktum sé það ekki hluti af ráðningarfyrirkomulagi starfsfólks.