Borgarráð samþykkti í gær samhljóða tillögu um opnun nýs leikskóla í húsnæði Ármúla 6 sem starfræktur verður sem hluti af leikskólanum Múlaborg sem er til húsa í Ármúla 8a. Leikskólinn mun geta tekið á móti 60 börnum í hinu nýja húsnæði sem verður kærkomin viðbót fyrir ungbarnafjölskyldur í borginni. Ráðgert er að nýi leikskólinn verði tilbúinn til notkunar næsta vor.
Þá verða í janúar opnaðar nýjar deildir við leikskólana Gullborg í Vesturbæ og Funaborg í Grafarvogi. Við þessa stækkun fjölgar um 27 pláss í Gullborg og 24 í nýju skógarhúsi við Funaborg.
Fyrstu tveir leikskólar Ævintýraborga eru komnir til landsins og unnið er að uppsetningu þeirra, jarðvegsvinnu og framkvæmdum á lóðum. Innritun barna hófst fyrir nokkru og liggja nýjar áætlanir um tímasetningar opnunar nú fyrir.
Ævintýraborgir eru leikskólar í færanlegu húsnæði sem hæfa vel nútíma leikskólastarfi og mæta kröfum um góðan aðbúnað barna og starfsfólks. Til stendur að setja upp fjóra slíka skóla í borginni. Munu þeir alls hýsa 340 börn og mæta brýnni þörf fyrir ný leikskólapláss í Reykjavík. Þrír þeirra munu taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri til sex ára en einn þeirra, við Vörðuskóla, mun taka við börnum frá 12 mánaða aldri til þriggja ára.
Á Ævintýraborg við Eggertsgötu er nú unnið að frágangi utan- og innanhúss. Þar er stefnt að því að leikskólinn verði opnaður í byrjun febrúar.
Á Ævintýraborg við Nauthólsveg er búið að samþykkja byggingarleyfisumsókn og er áætlað að hefja vinnu á svæðinu á þessu ári. Þar er nú stefnt að því að opna skólann í lok mars eða nokkrum vikum síðar en áætlað var.
Ævintýraborgir í Vogabyggð og við Vörðuskóla eru í undirbúningi og er stefnt að opnun þeirra á vormánuðum komandi árs.
Leikskólastjórar Ævintýraborganna eru í góðum samskiptum við foreldra og forráðamenn barna sem hafa fengið úthlutað plássum og halda þeim vel upplýstum.
Öll þessi verkefni tengjast aðgerðaáætluninni Brúum bilið sem borgarstjórn samþykkti í nóvember 2018 en það miðar að því að fjölga leikskólaplássum svo bjóða megi börnum í leikskóla allt frá 12 mánaða aldri fyrir lok árs 2023. Uppbyggingin felst fyrst og fremst í byggingu nýrra leikskóla en einnig í viðbyggingum við starfandi leikskóla, nýjum leikskóladeildum í færanlegu húsnæði og fjölgun barna í sjálfstætt starfandi leikskólum.