Blaði hefur verið dreift í hús um uppbyggingu íbúða í borginni, eins og venja hefur verið nokkur undanfarin ár. Með þessum hætti fá íbúar greinargóðar upplýsingar um stöðuna á hverjum tíma og innsýn í framtíðaruppbyggingu og geta skoðað stóru myndina í húsnæðisáætlun Reykjavíkur. Árviss kynningarfundur borgarstjóra um uppbyggingu íbúða í borginni verður haldinn föstudag 17. nóvember og þar verður farið í máli og myndum yfir hvar verið er að byggja og hver séu framtíðarbyggingarsvæðin. Fundurinn verður að þessu sinni í Sjálfstæðissalnum á Hótel Parliament, Thorvaldsenstræti 2, og hefst hefst kl. 9 á föstudagsmorgun.
Til að sýna stöðu húsnæðisuppbyggingar í dag sem best er blaðið ríkulegt af nýjum ljósmyndum, auk efnis frá hönnuðum. Forsíðumyndin er fengin úr vinningstillögu fyrir Keldnaland, en sagt er frá því á opnu í blaðinu.
Rætt er við íbúa, hönnuði og framkvæmdaaðila. Samstarfi borgarinnar við félög eldri borgara, verkalýðshreyfinguna, námsmenn og búseturéttarfélög eru gerð góð skil, sem og því sem verið er að gera í búsetuúrræðum fyrir fatlaða. Þá fá umhverfismál sinn sess því þegar stefnt er að metuppbyggingu húsnæðis verður að huga að þeirri losun sem mannvirkjageirinn stendur fyrir. Reykjavíkurborg kemur víða að slíkum verkefnum og leiðir mörg þeirra.
Frásögnum af uppbyggingu er í blaðinu skipt upp eftir borgarhlutum til að auðvelda íbúum að skoða uppbyggingu í sínu hverfi. Á kort er merkt hvar íbúðir eru í byggingu, hvar byggingarhæfar lóðir eru og hvar samþykkt deiliskipulag liggur fyrir. Einnig er merkt á kortið svæði sem eru í skipulagsferli og hver eru þróunarsvæði, en fyrir þessi svæði er gerður skýr fyrirvari um að tölur séu áætlaðar og háðar endanlegu mati í formlegu deiliskipulagi. Allar upplýsingar eru sóttar í Kortasjá sem uppfærð er oft á ári.
Sagt er frá fyrsta BREEAM umhverfisvottaða skipulaginu fyrir á íbúðarbyggð og einnig eru það áhugaverðar fréttir að framkvæmdir séu hafnar við fyrstu íbúðabyggingarnar á Ártúnshöfða, en það er stærsta uppbyggingarsvæðið í Reykjavík næstu árin með íbúafjölda á við Garðabæ.
Hægt er að skoða rafræna útgáfu á vefsíðunni reykjavik.is/ibudir