Kynningarfundur um uppbyggingu á Keldnalandi

Skipulagsmál

Keldnaholt

Kynningarfundur um fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er varða landnotkun og þróun byggðar í landi Keldna og nágrennis verður haldinn á Borgarbókasafni Spönginni miðvikudaginn 16. október kl. 17. Einnig verður vinningstillagan kynnt á fundinum.

Það sem framundan er 

Reykjavíkurborg og Betri samgöngur ohf. efndu til opinnar, alþjóðlegrar samkeppni um þróun Keldnalands í upphafi árs 2023. Framundan er uppbygging á nýju og vel tengdu íbúahverfi í Reykjavík. Markmiðið er að á Keldnalandi rísi spennandi nútímahverfi sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi. 

Skipulagsvinna í Keldnalandi er hafin með tilheyrandi kynningar- og samráðsferli en áformað er að vinnuferlinu ljúki í byrjun árs 2026. Verklýsing aðalskipulagsbreytingar hefur verið gerð aðgengileg á skipulagsgatt.is og gefst þar tækifæri til að skoða gögnin og koma með ábendingar en athugasemdafrestur er til 31. október næstkomandi.

Kynningarfundurinn

Nýlega var haldinn sérstakur Keldnadagur með opnu húsi, gönguferð og sýningu sem stendur nú yfir í Borgarbókasafninu Spönginni. Hann var mjög vel heppnaður og fjöldi fólks mætti. Einnig hafa arkitektar frá FOJAB kynnt vinningstillögu sína um Keldnaland fyrir áhugasömum. FOJAB arkitektar og samstarfsaðilar eru ráðgjafar Reykjavíkurborgar og Betri samgangna um valda þætti er lúta að undirbúningi skipulagningar og hönnunar Keldnalands.

Nú er komið að almennum kynningarfundi um aðalskipulagsbreytinguna, verklýsingu vegna uppbyggingar í landi Keldna og nágrennis ásamt því hvernig staðið verður að umhverfismati breytinganna. Að kynningu lokinni verður gestum boðið að skoða sýningu af vinningstillögunni.

Öll velkomin, kaffi á könnunni.