Kynningarfundur á deiliskipulagstillögu fyrir Nýja Skerjafjörð

Skipulagsmál

""

Reykjavíkurborg leggur mikinn metnað í að Nýi Skerjafjörður verði fallegt og sjálfbært hverfi þar sem stutt er í helstu þjónustu og aðgengi að grænum svæðum gott. Streymisfundur verður haldinn til að kynna málið miðvikudaginn 3. júní kl. 17 á reykjavik.is/nyi-skerjafjordur og á facebook.com/Reykjavik þar sem jafnframt er hægt að senda inn stuttar fyrirspurnir.

Gangandi og hjólandi notendur verða í fyrsta forgangi í allri hönnun í hverfinu. Hverfið verður umlukið grænum geirum, nýju strandsvæði og milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leik- og dvalarsvæðum og mikilli gróðursælu. Samgöngutengingar við hverfið verða frá Einarsnesi í vestri og um nýja vegtengingu í austri sem nær suður fyrir Reykjavíkurflugvöll til viðbótar við núverandi göngu- og hjólastíga. Nýtt deiliskipulag fyrir nýja byggð í Skerjafirði er hluti af framfylgd fjölda samninga milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Skipulagið mun hvorki skerða núverandi starfsemi né nýtingu Reykjavíkurflugvallar.

Uppbygging Nýja Skerjafjarðar mun eiga sér stað í tveimur áföngum. Fyrri áfangi er innan svæðis þar sem núverandi flugvallargirðing afmarkar.  Líklegt er að skipulagsvinna við annan áfanga fari í kynningar- og samþykktarferli vor eða sumar 2021. Deiliskipulagstillagan mun verða aðgengileg á meðan auglýsingarferli stendur yfir á vef Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is – skipulag í kynningu

Senda fyrirspurnir fyrirfram

Hægt er að senda fyrirspurnir fyrirfram á kynningarfundinn á netfangið skipulag@reykjavik.is. Svör verða þá veitt á fundinum.

Frekari upplýsingar og dagskrá fundar má finna á reykjavik.is/nyi-skerjafjordur Fundurinn er sendur þar og á facebooksíðu Reykjavíkurborgar. 

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar