Krúttlegar kanínur leita sér að heimilum – átak í Elliðaárdal

Kanínur úr Elliðaárdalnum leita sér að heimilum

62 kanínur hafa eignast tímabundið skjól vegna tilraunaverkefnis á vegum Dýrahjálpar Íslands, Villikanína og Dýraþjónustu Reykjavíkur. Kanínurnar voru veiddar í Elliðaárdalnum þar sem lífsbarátta þeirra er afar hörð og er markmiðið að finna góð heimili fyrir öll dýrin.

Nú eru um tvö hundruð villtar kanínur í Reykjavík. Veira fækkaði þeim mikið en þar sem þær fjölga sér gríðarlega hratt gæti fjöldinn verið orðinn mun meiri í lok sumars. Þessar kanínur hafa það alls ekki gott og í nóvember kviknaði sú hugmynd að fara í átak, veiða sem flestar kanínur og koma þeim í skjól. „Eftir það gerðist allt hratt. Ég stakk upp á að við hjá Dýrahjálp Íslands færum í samstarf við Villikanínur og Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar og vel var tekið í það. Það hafði verið kvartað mikið undan kanínum í borgarlandinu enda skemma þær gróður; grafa holur og naga tré og rætur. Svo flækjast þær inn í íbúðahverfi og fólk er misánægt með að fá kanínur í garðinn sinn,“ segir Gréta Sóley Sigurðardóttir, verkefnastjóri og sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp Íslands og Villikanínum. „Þetta er manngert vandamál sem byrjaði af því að fólk fór að sleppa út gælukanínunum sínum.“ 

Erfitt líf fyrir kanínur í Elliðaárdal

Hún segir verkefnið fyrst og fremst snúast um að hjálpa kanínunum og veita þeim betra líf. „Elsta kanínan sem við höfum getað fylgst með í dalnum varð tveggja ára, á meðan meðalaldur kanína sem fæðast og lifa inni eru 12-14 ár. Þær lifa ekki góðu lífi í Elliðaárdalnum og fólk sér ekki ljótu hliðarnar á þessu þegar það kíkir á þessi krúttlegu dýr. Þær eru í mikilli hættu í Elliðaárdalnum og því ákváðum við að hefja þetta tilraunaverkefni þar. Þarna eru umferðargötur svo kanínurnar verða oft fyrir bílum auk þess sem þær flækjast út á hjólastíga sem skapar hættu fyrir þær og ekki síður hjólreiðafólk. Svo eru ekki allir dýravinir og við höfum til dæmis haft afskipti af því þegar börnum er leyft að hlaupa á eftir dýrunum eða þau eru rifin upp fyrir myndatökur. Kanínurnar eru mjög hræddar og alltaf á varðbergi þarna niðurfrá,“ segir Gréta. „Ef kanínur fá sýkingar er líka mjög erfitt að vinna á þeim því meltingin þeirra er svo hröð. Það þarf að gefa þeim mjög stóran skammt af sýklalyfjum og þegar dýrin eru úti í alls kyns aðstæðum er sýkingarhættan auðvitað mikil um leið og þau fá sár.“ 

Lilja Björk Vilhelmsdóttir, starfsmaður í Dýraþjónustu Reykjavíkur, tekur í sama streng og bætir við að þar sem kanínur séu margar á svæðinu og samkeppnin þeirra á milli því mikil, slasi þær oft hver aðra. „Þegar koma kanínuungar á vorin þá eru mávar og krummi alls staðar og svo eru gæsir þarna sem eru líka bara að reyna að lifa af og þær bíta kanínurnar og reka þær í burtu,“ segir Lilja. „Þetta kanínuverkefni er eitt af vitundarverkefnunum okkar. Við viljum líka fara með þetta í Öskjuhlíðina en fyrst þurfum við að sjá hversu vel þetta gengur.“ 

Með 18 kanínur heima hjá sér ásamt öðrum dýrum

62 kanínur hafa þegar verið veiddar og fer framhald verkefnisins eftir því hvort tekst að finna þeim heimili. Af þessum 62 eru nokkrar heimiliskanínur og segir Gréta alltaf meira um að fólk sleppi kanínunum sínum út á vorin. „Það er leiðinlegur vorboði í okkar starfi að sjá þeim hent út,“ segir hún. Um 25 sjálfboðaliðar eru virkir í verkefninu en auk þeirra taka fleiri þátt til skemmri tíma. „Við erum alltaf til í fleiri sjálfboðaliða og ef við höfum fleiri hendur og meiri tíma er hægt að gera miklu meira fyrir kanínurnar.“ Á heimasíðu Dýrahjálpar, dyrahjalp.is, má nálgast nánari upplýsingar um verkefnið og skrá sig sem sjálfboðaliða. 

Það leynir sér ekki hvað Gréta er mikill dýravinur. Hún þekkir með nafni allar kanínurnar sem hafa verið veiddar í verkefninu og fóstrar nú 18 kanínur heima hjá sér. Þar lifa þær í sátt og samlyndi með hundi, köttum og naggrísum og því er líf og fjör á heimilinu. „Við hvetjum fólk til að taka að sér kanínur hafi það áhuga á því. Dreifum ábyrgðinni,“ segir hún og hlær en tekur fram að ekki þurfi allir að taka að sér 18 stykki. „Við miðum við að hafa þær tvær og tvær saman því þær eru miklar félagsverur. Ég bjóst aldrei við að verða kanínumanneskja og hélt að þetta væru leiðinleg og persónuleikalaus dýr en þær eru stórskemmtilegar. Þú þarft ekki að vita allt um kanínur til að geta fóstrað eða tekið þær að þér, en þú þarft að vera til í að læra og þar getum við aðstoðað. Við hjálpum fólki og fræðum ef það vill.“ 

Betra að fá aðstoð en að sleppa kanínum lausum

Á heimasíðu Dýrahjálpar er einnig hægt að sækja um að fóstra eða taka að sér kanínur. „Ef þú fóstrar kanínu leyfir þú henni að vera hjá þér þar til hún fær framtíðarheimili og þessu fylgir ekki kostnaður frekar en fólk vill. En við þiggjum alltaf styrki, sama á hvaða formi þeir eru. Mörg fósturheimilanna skaffa til dæmis sjálf fóður fyrir kanínurnar en við höfum útvegað hey, trjágreinar til að naga og fleira. Við getum skaffað allt en erum mjög þakklát ef fólk vill leggja eitthvað til sjálft. Ef þú tekur kanínu að þér er hún orðin þín og þá sérð þú um að eiga allt fyrir hana,“ útskýrir Gréta og tekur fram að verkefnið sé unnið í samráði við MAST (Matvælastofnun). „Það er bannað að veiða villt dýr nema í undantekningartilfellum og við erum með leyfi, það á ekki hver sem er að fara niður í dal og taka sér kanínu. Þá er betra að gerast sjálfboðaliði eða taka að sér kanínu í gegnum okkur því þær sem við látum frá okkur er allar búið að gelda, bólusetja, ormahreinsa og örmerkja. Það er betra, bæði fyrir kanínurnar og eigendur þeirra.“

Lilja Björk tekur undir, betra sé að fá sér kanínur sem búið sé að nostra við og spekja. „Við biðlum líka til fólks að sleppa kanínum ekki lausum; það er alltaf hægt að leita sér aðstoðar og fara aðra leið en að hleypa dýrinu sínu út í náttúruna. Það eru komnar góðar dýramiðlanir sem aðstoða fólk sem er í vanda með dýrin sín og þarf að losa sig við þau og við getum líka haft milligöngu. Við reynum að hjálpa til í slíkum aðstæðum.“