Efnt verður til Keldnadags næstkomandi laugardag 21. september þar sem fólki gefst tækifæri til að heimsækja svæðið, líta inn á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum og fá leiðsögn um hluta Keldnalands. Sýning á verðlaunatillögu FOJAB arkitekta um uppbyggingu í Keldnalandi, sem samanstendur af Keldum við Grafarvog og Keldnaholti við Korpu, verður opnuð á bókasafninu í Spöng sama dag. Öll velkomin.
Dagskrá laugardaginn 21. september
11.00 Opnun sýningar í Borgarbókasafninu Spönginni. Sýningin stendur yfir til 17. október.
13.00 Opið hús á Tilraunastöðinni. Sagt verður frá stofnuninni og starfsemi hennar í bókasafninu sem er á jarðhæð að sunnanverðu á húsi 2 (sjá meðfylgjandi mynd). Í framhaldinu verður gengið um svæði Tilraunastöðvarinnar og sagt frá starfseminni sem fer fram í húsunum.
14.00 Leiðsögn um svæðið með Þórólfi Jónssyni, deildarstjóra náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg. Gönguferðin hefst við Tilraunastöðina og verður gengið um trjáræktarreitinn Kálfamóa sem er merkileg gróðurvin í borgarlandinu. Þátttakendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri og vera á skóm sem þola göngu í graslendi.
Uppbygging á Keldnalandi
Keldnaland verður þétt, fjölbreytt og grænt borgarhverfi sem nýtur góðs af nálægð við náttúruna, góðum almenningssamgöngum og áherslu á fjölbreytta ferðamáta. Borgarlínan mun fara um svæðið sem þýðir fleiri valkosti fyrir íbúa með auknum lífsgæðum og góðri þjónustu. Íbúar eiga að geta lifað sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi með vistvænum samgöngum, grænum svæðum, hverfisgörðum og torgum en markmiðið er lifandi borgarumhverfi.
Keldnaland er byggt upp í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna.