Jólavættir Reykjavíkurborgar komnar á stjá
Jólavættaleikur Reykjavíkurborgar er hafinn og venju samkvæmt eru 13 jólavættir búnar að koma sér fyrir hér og þar um borgina.
Ratleikurinn er snjallvæddur og auðvelt er að nálgast hann á síðunni jolavaettir.borginokkar.is.
Jólavættaleiknum er ætlað að hvetja borgarbúa og aðra gesti til að njóta miðborgarinnar á aðventunni. Jafnframt því er verið að upphefja íslenska sagnahefð og tengja íbúa borgarinnar við gesti hennar í gegnum samtöl og sögur. Gunnar Karlsson myndlistarmaður teiknaði vættirnar sem hafa lífgað upp á miðborgina á aðventunni frá árinu 2011.
Leppalúði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Jólakötturinn og Þórálfur verða búnar að koma sér fyrir á húsveggjum víða í miðbænum í desember og úr verður skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna. Þátttakan felst í því að leita uppi vættirnar og svara laufléttum spurningum.
Dregið verður úr svarseðlum 20. desember og vegleg verðlaun í boði fyrir þrjá heppna þátttakendur sem eru með öll svör rétt.
Leikurinn er inn á jolavaettir.borginokkar.is og þar getur þú tekið þátt í þessum skemmtilega jólaratleik.
Gangi ykkur vel og góða skemmtun!