Jólaskógurinn var formlega opnaður í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á föstudaginn. Leikskólabörnum var boðið á opnunina og mættu Grýla og Leppalúði og sögðu börnunum sögur af jólasveinunum.
Börnum frá leikskólunum Sæborg, Álftaborg og Miðborg var boðið á opnunina og skömmu síðar mættu Grýla og Leppalúði á svæðið við mikla kátínu krakkanna. Einar Þorsteinsson, borgarstjóri kom svo og heilsaði upp á börnin og spilaði á gítar og söng jólalög. Síðan var gengið í kringum jólatréð í fallega skreyttum salnum. Að því loknu var boðið upp á kakó og smákökur og Grýla og Leppalúði sögðu börnunum sögur af jólasveinunum, en nú styttist í að Stekkjastaur, fyrsti jólasveinninn, komi til byggða.
Þetta er í þrettánda sinn sem Tjarnarsalnum er breytt í jólaskóg og sá upplifunarhönnuðurinn Kateřina Blahutová um hönnun og framkvæmd verkefnisins að þessu sinni. Þá má geta þess að aðal jólatréð er skreytt með hinni fallegu Kærleikskúlu.
Öll eru velkomin í jólaskóginn og hægt verður að skoða hann í Ráðhúsi Reykjavíkur virka daga kl. 08:00–18:00, laugardaga kl. 10:00–18:00 og sunnudaga kl. 12:00–18:00.
Jólavættir í felum í miðborginni
Þá er Jólavættaleikur Reykjavíkurborgar hafinn og venju samkvæmt hafa 13 jólavættir komið sér fyrir hér og þar um borgina. Ratleikurinn er snjallvæddur og auðvelt er að nálgast hann á síðunni jolavaettir.borginokkar.is.
Leppalúði, Leiðindaskjóða, Jólakötturinn og fleiri furðuverur eru meðal þeirra sem hafa fundið sér stað og felst þátttaka í ratleiknum í að leita uppi vættirnar og svara laufléttum spurningum. Dregið verður úr svarseðlum 19. desember og vegleg verðlaun í boði fyrir þrjá heppna þátttakendur sem hafa öll svör rétt.
Jólavættaleiknum er ætlað að upphefja íslenska sagnahefð og hvetja borgarbúa og aðra gesti til að njóta miðborgarinnar á aðventunni. Gunnar Karlsson myndlistarmaður teiknaði vættirnar sem hafa lífgað upp á miðborgina á aðventunni frá árinu 2011.
Gangi ykkur vel og góða skemmtun!