No translated content text
Ísold boðið til viðræðna um lóð á Krókhálsi
Fasteignafélaginu Ísold verður boðið til viðræðna um lóðarvilyrði vegna lóðar að Krókhálsi 20-22. Auglýst var eftir samstarfsaðila um þróun lóðarinnar og reyndist tilboð Ísoldar hagstæðast. Borgarráð samþykkti tillögu þessa efnis á fundi sínum í gær.
Ísold lagði fram hugmynd að byggingu sem myndi hýsa geymsluhúsnæði á 2-4 hæðum þar sem á jarðhæð væru 25-50 fermetra geymslur með innakstursdyrum. Þær geymslur yrðu hugsaðar fyrir minni fyrirtæki og einyrkja sem þurfa rými fyrir t.d. verkfæri, litla efnislagera o.þ.h. Á efri hæðum væru minni geymslur, hugsaðar fyrir einstaklinga. Yrði þarna því á einum stað húsnæði sem þjónað gæti þörfum bæði einstaklinga og minni fyrirtækja en hingað til hefur ákveðin aðskilnaður verið milli þessara tveggja hópa. Horft yrði til þess að byggja aðlaðandi byggingu sem fellur vel við landslag sitt.
Lóðin Krókháls 20-22 er fyrsta lóðin sem Reykjavíkurborg skipuleggur úr landi Golfklúbbs Reykjavíkur í kjölfar þess að aðilar gerðu með sér samning þess efni. Auglýst var eftir samstarfsaðilum þann 28. desember 2023 og var frestur til þess að skila inn tillögum gefin til 1. febrúar. Fjórar tillögur bárust fyrir auglýsingafrest.
- Kynnisferðir sendi inn erindi um að nýta húsnæðið undir bækistöð fyrir almenningsvagna sem það sinnir í undirverktöku fyrir Strætó. Boðið verð í byggingarrétt var 300 milljónir.
- Tandur hf. sendi inn tillögu um framleiðslu- og lagerhúsnæði auk skrifstofubyggingar en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu og dreifingu á hreinlætisvörum. Boðið verð var 250 milljónir.
- Ísold fasteignafélag sendi inn hugmynd að geymsluhúsnæði fyrir einyrka, smærri fyrirtæki og einstaklinga. Boðið verð er 352 milljónir miðað við efri mörk umbeðins byggingarmagns.
- Öxar byggingarfélag sendi loks tilboð um að byggja upp lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara á lóðinni. Boðið verð þar var 300 milljónir.
Tilboð Öxar er ekki í samræmi við aðalskipulag þar sem íbúabyggð er ekki leyfileg á þessu svæði. Það var því ekki tekið til nánari skoðunar.
Niðurstöður viðræðna við Ísold verða lagðar fyrir borgarráð og ef lóðarvilyrði verður samþykkt þá mun félagið hafa ákveðinn tíma til þess að vinna breytingar á deiliskipulagi í takt við sínar óskir. Greitt verður fyrir lóðarvilyrðið sem nemur 10% af byggingarréttargjaldi fyrir hvert gildisár.