Íslenskuverðlaun unga fólksins afhent í átjánda sinn

Skóli og frístund

Íslenskuverðlaun unga fólksins 2024

37 börn fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Hörpu á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Var það í átjánda sinn sem verðlaunin eru afhent en þau eru á vegum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli.

Lestrarhestar og framúrskarandi upplesarar meðal verðlaunahafa

Á undanförnum árum hafa á bilinu 35 – 50 nemendur hlotið verðlaunin á hverju ári. Þeim er boðið á athöfnina ásamt fjölskyldum sínum, stjórnendum skólanna, skóla- og frístundaráði. Verðlaunin eru veitt nemendum sem hafa:

  • sýnt færni, frumleika og sköpunargleði við að tjá sig á íslensku í ræðu og/eða riti,
  • sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar,
  • tekið miklum framförum í íslensku.

Frú Vigdís Finnbogadóttir er verndari verðlaunanna en þau voru afhent í dag af Mörtu Guðjónsdóttur, formanni nefndar um Íslenskuverðlaunin, Sabine Leskopf og Ástu Björg Björgvinsdóttur, fulltrúum skóla- og frístundaráðs. Verðlaunin voru viðurkenningarskjal og bókin Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar. Á meðan á afhendingunni stóð var umsögnum varpað upp á skjá og rökstuðningur fyrir verðlaununum lesinn upp.

Íslenskuverðlaun unga fólksins 2024

Nemendur úr Fellaskóla, þær Louise Shayne Mangubat Canonoy og Zuzanna Siwek sungu fyrir verðlaunahafa og gesti og Harpa Þorvaldsdóttir spilaði undir á píanó. Fyrst tóku þær lagið Turning tables sem er lag Adele og Ryan Tedder en með íslenskum texta eftir nemendur í Fellaskóla. Seinna lagið var Esjan eftir Bríeti Ísis Elfar.

Íslenskuverðlaun unga fólksins 2024