37 börn fengu Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Hörpu á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Var það í átjánda sinn sem verðlaunin eru afhent en þau eru á vegum skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli.
Lestrarhestar og framúrskarandi upplesarar meðal verðlaunahafa
Á undanförnum árum hafa á bilinu 35 – 50 nemendur hlotið verðlaunin á hverju ári. Þeim er boðið á athöfnina ásamt fjölskyldum sínum, stjórnendum skólanna, skóla- og frístundaráði. Verðlaunin eru veitt nemendum sem hafa:
- sýnt færni, frumleika og sköpunargleði við að tjá sig á íslensku í ræðu og/eða riti,
- sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar,
- tekið miklum framförum í íslensku.
Frú Vigdís Finnbogadóttir er verndari verðlaunanna en þau voru afhent í dag af Mörtu Guðjónsdóttur, formanni nefndar um Íslenskuverðlaunin, Sabine Leskopf og Ástu Björg Björgvinsdóttur, fulltrúum skóla- og frístundaráðs. Verðlaunin voru viðurkenningarskjal og bókin Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar. Á meðan á afhendingunni stóð var umsögnum varpað upp á skjá og rökstuðningur fyrir verðlaununum lesinn upp.
Nemendur úr Fellaskóla, þær Louise Shayne Mangubat Canonoy og Zuzanna Siwek sungu fyrir verðlaunahafa og gesti og Harpa Þorvaldsdóttir spilaði undir á píanó. Fyrst tóku þær lagið Turning tables sem er lag Adele og Ryan Tedder en með íslenskum texta eftir nemendur í Fellaskóla. Seinna lagið var Esjan eftir Bríeti Ísis Elfar.