Innanlandsflugvöllur í Vatnsmýri til 2022
Fulltrúar ríkisstjórnar, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group skrifuðu í dag undir samkomulag um innanlandsflug. Í samkomulaginu kemur fram að aðilar eru sammála um að fyrsti kostur fyrir innanlandsflugvöll sé á höfuðborgarsvæðinu og að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði starfræktur með tveimur flugbrautum til ársins 2022.
Í samkomulaginu felst einnig að vinna verður hafin við að fullkanna aðra kosti fyrir framtíðarstaðsetningu flugvallar á höfuðborgarsvæðinu.
Stofnaður verður stýrihópur undir formennsku Rögnu Árnadóttur sem er sameiginlegur fulltrúi þeirra þriggja aðila sem að samkomulaginu standa. Til þeirrar vinnu verður boðið hagsmunaaðilum á svæðinu, auk fulltrúa þeirra sem beitt hafa sér fyrir því að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði eða fari.