Hvílustæðum fjölgar í borgarlandinu

Borgarhönnun Mannlíf

Hvílustæði við Lækjargötu.

Undanfarin ár hefur orðið mikil fjölgun á hvílustæðum (e.parklet) í borgarlandinu. Hvílustæði eru bílastæði sem breytt hefur verið í dvalarsvæði, gjarnan tengd rekstri við götuna og er að öllu jöfnu gerð að frumkvæði rekstraraðila. Leiðbeiningar um hvílustæði voru samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í dag 26. apríl.

Leiðbeiningarnar eru samdar til að einfalda og skýra út ferlið við gerð og uppsetningu hvílustæða í borgarlandi. Þær tryggja bætt öryggi og fela í sér bætta ásýnd og kalla á meira mannlíf í borgarrýminu. Hönnunarleiðbeiningarnar fjalla einnig um aðgengi, afmörkun, efnisval, götugögn og nýtingu.

Hvað eru hvílustæði?

Hvílustæði eru bílastæði sem breytt er tímabundið í dvalarsvæði fyrir íbúa og gesti borgarinnar. Megináhersla með hvílustæðunum er að skapa skemmtileg svæði fyrir fólk í sólríkum göturýmum borgarinnar, svæðum sem geta hvatt til dvalar, samskipta og leiks.

Hvílustæði eru bílastæði sem breytt er tímabundið í dvalarsvæði fyrir íbúa og gesti borgarinnar

Hvílustæðin eru tilraun sem getur leitt til þess að göturýmið taki breytingum seinna meir og verði gert að varanlegu dvalarsvæði. Á sama tíma er reynt að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og hvetja þá til þátttöku í mótun svæðanna.

Umsækjendur um hvílustæði bera allan kostnað hvað varðar hönnun, uppsetningu og leyfi fyrir stæðinu. Fjölbreytni og áhugaverð hönnun eru grundvallaratriði í gerð hvílustæða og styður áhugaverð hönnun við markmið hvílustæða um að skapa áhugavert og líflegt borgarumhverfi.

Hvernig er sótt um hvílustæði?

Leiðbeiningar þessar eru hugsaðar til að einfalda og skýra út ferlið við gerð og uppsetningu.