Hvernig sótt er um leyfi fyrir útiveitingasvæði

Mannlíf Samgöngur

""

Reglur um afnot af borgarlandi vegna útiveitinga hjá Reykjavíkurborg komu síðast út í febrúar 2018. Þar er lýst hvernig sækja skal um útiveitingasvæði og þar er lýst hvernig uppsetningum skuli háttað. 

Markmið þessara reglna er að leiðbeina og styðja veitingaaðila til að finna góðar lausnir á útivistarsvæðum, tryggja aðgengi og öryggi allra sem ferðast um borgarlandið. Einnig að tryggja samræmd vinnubrögð þegar óskað er eftir afnotum af borgarlandi fyrir útiveitingar, til lengri eða skemmri tíma.

Útiveitingasvæði er þjónustusvæði sem inniheldur borð, stóla, skilveggi og/eða annað sem notað er í tengslum við útiveitingar við veitingastaði. Þau má gjarnan finna í miðbæ Reykjavíkur og eru skilgreind í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Sækja þarf um leyfi fyrir útiveitingasvæði á svæðum sem eru í eigu eða á umráðasvæði Reykjavíkurborgar. Það er þá helst á götum, veghelgunarsvæðum, gangstéttum og –stígum, hjólastígum, torgum, görðum, opnum og grænum svæði.

Sótt er um rekstrarleyfi til útiveitinga til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu en mikilvægt er að hafa í huga að:

  • Veitingaaðili sem sækir um rekstrarleyfi í fyrsta skipti þarf að gæta þess að tilgreina sérstaklega að sótt sé einnig um leyfi til útiveitinga.
  • Veitingastaðir sem eru með gilt rekstrarleyfi sem nær ekki til útiveitinga, þurfa að sækja um breytingu á rekstrarleyfi svo leyfið ná til útiveitinga.

Við umsókn á rekstrarleyfi eða breytingu á rekstrarleyfi til sýslumannsins skal gæta þess að:

  • Umsókn fylgi málsett teikning sem sýnir stærð og skipulag (borð og stólar) útiveitingasvæðisins. 
  • Ef fyrirhugað er að nota skjól (t.d. gróður eða veggi), skilrúm eða hitalampa skal slíkur búnaður vera sýndur á sömu teikningu. Til viðbótar, skal fylgja með mynd/teikning sem sýnir útlit búnaðar, ásamt stærð þess.
  • Afgreiðslutími útiveitinga sem tilgreindur er, sé eigi lengur en til klukkan 23.00 óháð opnunartíma veitingastaðarins.

Staðsetning og stærð útiveitingasvæðis

Reglur um staðsetningu og stærð útiveitingasvæðis skiptist í tvennt, eftir því hvort útiveitingasvæði stendur við götu eða torg. Reglur fyrir staðsetningu útiveitingasvæðis við umferðar- og göngugötur eru breytilegar eftir því hvort útiveitingasvæði er við framhlið bygginga, á millisvæði eða í bílastæði. Reglurnar eru skýrar og með góðum skýringarmyndum og textum eins og sjá má hér fyrir neðan:

Reglur um afnot af borgarlandi vegna útiveitinga