Hverfiskjarnar í Arnarbakka og Fellagörðum lifna á ný

Skipulagsmál

Tölvuteiknuð mynd af leikskólasvæði við Völvufell.

Deiliskipulagsbreytingar fyrir hverfiskjarna Breiðholts l og lll í Arnarbakka og Fellagörðum ásamt Völvufelli hafa verið samþykktar í borgarráði í auglýsingu. Reykjavíkurborg keypti byggingar í tveimur hverfiskjörnum á þessum svæðum með það markmiði að styrkja kjarnana og taka svæðin í gegn.

Breiðholt I, Bakkar

Borgarráð samþykkti í júní að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna Arnarbakka. Heimild er veitt til niðurrifs á núverandi verslunar og þjónustuhúsnæði í Arnarbakka 2-6, uppbyggingu námsmannaíbúða með verslunar- og þjónusturýmum að hluta til á 1. hæð auk íbúðarhúsnæðis á grænni þróunarlóð, gróðurhúss og endurbætur á grænu svæði, samkvæmt uppdrætti BASALT arkitekta ehf.

Byggt á vistvænum ferðavenjum

Aðalskipulagið kveður á um verslun og þjónustu í hverfiskjarnanum. Í þessum kjarna er gert ráð fyrir stórri matvöruverslun og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem getur þjónað heilu hverfi. Veitingastaðir eru einnig heimilir í slíkum hverfiskjörnum, svo og íbúðir á efri hæðum bygginga.

Byggingar munu taka mið af núverandi byggð og fléttast áreynslulaust inn í byggðamynstrið. Græn svæði betur skilgreind með skýr hlutverk. Bjart og skjólríkt torg við verslanir hefur aðdráttarafl. Blágrænar ofanvatnslausnir verða notaðar. Verslun og þjónusta, gróðurhús, matjurtagarðar og íbúðir á stúdenta-görðum, sem og aðrar íbúðir, verða vinsæl innan og utan hverfis. Byggt verður á vistvænum ferðavenjum, stutt verður í hágæða almenningssamgöngur, samnýting verður bílastæðum. Í hönnun er horft til þess að bæta lýðheilsu, hljóðvist og loftgæði.

Hildur Gunnarsdóttir arkitekt og verkefnastjóri hjá umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkurborgar kynnti nýlega tillögu að deiliskipulagsbreytingum á Arnarbakka á upplýsingafundi um Hverfiskipulag í Breiðholti. Þar kom m.a. fram að að svæðið við Arnarbakka mun áfram vera að mestu grænt. Hún nefndi dæmi um möguleika svæðisins í heild sinni og hvernig staðsetja mætti nýbyggingarnar í framhaldi af stefnu, hæð og umfangi U-blokkanna á svæðinu og mynda þannig með þeim kjarna fyrir miðju hverfi ásamt því að afmarka græn svæði og mynda nýtt torg.

Sól- og skjóríkt torg

Nýbyggingarnar verða þriggja til fjögra hæða byggingar sem taka mið af núverandi byggð. Græn svæði verða betur skilgreind með reiti fyrir matjurtaræktun auk þess sem gróðurhúsi til almennra nota verður komið fyrir inn á svæðinu. Íbúðir við Arnarbakka verða alls 65 og skiptast jafnt á milli einstaklings og þriggja herbergja íbúða. Á fyrstu hæð eru verslunar- og þjónusturými auk sameiginlegra rýma námsmannaíbúðanna, sem gert er ráð fyrir að verða að hluta til líka opið almenningi. Við verslanir myndast skjólríkt torg sem liggur vel við sól og þar er að finna sameiginleg bílastæði fyrir svæðið. (sjá mynd). Fjölbýlið næst Hjaltabakka verður með 25 íbúðum af ólíkum stærðum.

Bakkar myndasyrpa - Basalt.

Breiðholt III, Fell

Breytingar í Fellagörðum verða við Völvufell, Drafnarfell, Eddufell og Yrsufell. Breytingin felst í heimild til niðurrifs á leikskólunum Litla Holti og Stóra Holti. Byggður verður nýr leikskóli með aðkomu frá göngugötu við Drafnarfell. Auk leikskóla verða byggðar upp námsmannaíbúðir og sérbýli á grænum þróunarlóðum. Þegar eru fyrir hendi byggingaheimildir á lóð Drafnarfells 2-18 og á lóð Eddufells 2-4 ofan á hverfiskjarna og eru þær endurskoðaðar samkvæmt uppdrætti KRADS arkitekta.

Græn svæði betur skilgreind

Aðalskipulag gerir ráð fyrir verslun og þjónustu hverfiskjarnanum. Þar verði matvöruverslun og fjölbreytt verslun og þjónustu sem er fyrir heilt hverfi. Veitingastaðir eru heimilir sem og íbúðir á efri hæðum bygginga.

Íbúðasvæðið í Fellum stækkar til suðurs. Byggingar eiga að taka mið af núverandi byggð og fléttast inn í byggðamynstrið. Græn svæði eru skilgreind með skýrum hlutverkum. Gert er ráð fyrir torgi við verslanir, sem geta verið bæði sól- og skjólrík. Blágrænar ofanvatnslausnir verða notaðar. Verslun, þjónusta, matjurtagarðar, nýr leikskóli, raðhús og íbúðir á stúdentagörðum, sem og aðrar íbúðir. Byggt verður á vistvænum ferðavenjum, stutt verður í almenningssamgöngur, samnýting verður bílastæðum. Í hönnun er horft til þess að bæta lýðheilsu, hljóðvist og loftgæði.  

Tíu deilda leikskóli við Fellagarða

Samtals er nú heimild til að byggja 37 íbúðir á efri hæðum Fellagarða. Gert er ráð fyrir nýjum 10 deilda leikskóla við Fellagarða auk fjölskyldumiðstöðvar eða fjölnotahúsi í Völvufelli 45 sem verður hluti af sameiginlegum rýmum námsmannagarða (sjá mynd).

Við Völvufell 37 og 43 er heimild er til að byggja tveggja til fimm hæða fjölbýlishús með 90 einstaklings og fjölskylduíbúðum fyrir námsmenn. Einnig er heimild til að byggja tímabundin leikskóla á lóðinni, sem víkur fyrir námsmannaíbúðum þegar nýr sameinaður leikskóli er byggður (mynd).

Syðst á svæðinu er gert ráð fyrir fjórum lóðum  þar sem heimilt er að byggja sex raðhús með einni eða tveimur íbúðum í hverju húsi. Fjöldi íbúða verður frá 24 – 48 íbúða. Raðhúsin eru hluti af grænum þróunarlóðum borgarinnar (mynd). Matjurtarækt verður á borgarlandi á milli lóða og sameiginlegt leiksvæði fyrir miðju.

Myndasyrpa Fellin - Krads

Óskað er eftir ábendingum og athugasemdum við tillögur að Breiðholti I, Bakkar og Breiðholt III, Fell.  Þeim skal skila skriflega til skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 18. ágúst 2021.

Tenglar til að kynna sér málið nánar:

Skipulag í kynningu: Breiðholt I, Bakkar og Breiðholt III, Fell

PDF kynning

Bakkar myndasyrpa - Basalt.

Myndasyrpa Fellin - Krads

Helstu skipulagsverkefni Reykjavíkurborgar