Hverfi sem býður upp á vistvænan lífsstíl

Samgöngur Umhverfi

""

Í hönnunarleiðbeiningum fyrir nýtt hverfi í Skerjafirði eru lagðar markvissar línur fyrir vistvæna byggð en í leiðbeiningunum er sett fram heildarstefna um hönnun almenningsrýma á svæðinu. Takmarkið er að skapa sterkt samband milli náttúru og borgar og búa til umhverfi sem hvetur til félagslegra athafna og er umhverfislega og efnahagslega sjálfbært. Nýi Skerjafjörður býður íbúum upp á vistvænan lífsstíl.

Leiðbeiningarnar hafa verið í vinnslu frá því í febrúar 2021 hjá deild borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg en ráðgjafi verkefnisins er Mandaworks í Svíþjóð. Martin Arfalk frá Mandaworks kynnti hönnunarleiðbeiningarnar fyrir skipulags- og samgönguráði. Hann lagði áherslu á að göturnar snerust ekki aðeins um flæði. Allar götur verða akfærar en aðaláherslan er á samskipti fólks og að skapa góða nágrannastemningu. Götur verða grænar með fallegum dvalarsvæðum.

Hann kynnti nokkrar ólíkar götumyndir með einstefnugötum sem býr til meira rými fyrir fólk. Allar göturnar eiga það sameiginlegt að vera með grænt yfirbragð. Það er ekki aðeins fyrir fólk að njóta heldur til að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika og skapa svæði sem tekur á móti ofanvatni.

Fjölbreytilegt landslagið er grundvallarþátturinn fyrir heildaryfirbragð svæðisins. Í hverri götu er landslagið túlkað og sett inn í skipulag til að búa til einstaka götumynd og fjölbreytt og vönduð almenningsrými.

Fyrirmynd á uppbyggingarsvæðum

„Það fer vel á því að bílar fái í mesta lagi um þriðjung af götukassanum eins og hér er lagt til. Meðal hugmyndanna eru rými þar sem bílar eru algjörlega víkjandi nema vegna vöruflutninga eða slíks sem er ánægjulegt. Hér er um framúrskarandi borgarhönnun að ræða sem taka mætti til fyrirmyndar á uppbyggingarsvæðum,“ segir meðal annars í bókun meirihlutans.

Hönnunarmarkmiðin skiptast í fjóra flokka:

Vistvænar samgöngur

  • Umferð virkra ferðamáta, eins og gangandi og hjólandi vegfarenda, er í algjörum forgangi.
  • Breidd gangstétta og svæði fyrir gangandi stuðla að félagslegum samskiptum.
  • Götur eru hannaðar með öruggt umhverfi fyrir umferðarflæði í huga.

Lífseigur gróður

  • Gert er ráð fyrir miklu rými fyrir gróður í almenningsrými.
  • Gróðurinn uppfyllir skilyrði hvað varðar líffræðilega fjölbreytni, nýtingu regnvatns og áhrif á loftslag.
  • Staðsetning gróðurs skapar aðlaðandi umhverfi með afgerandi sérkenni.

Mannlíf

  • Gert er ráð fyrir leik, hvíld og samskiptum við hönnun almenningsrýma.
  • Íbúðagöturnar njóta góðs af forgangi gangandi vegfarenda og eru jafnframt sameiginlegt svæði fyrir íbúana.

Einstakt yfirbragð

  • Hönnun gatnakerfisins, hlutverk, gróðursetning og aðstaða veitir almenningsrýminu áberandi yfirbragð.

Innblástur frá Þingholtum og gamla Skerjafirði

Nýi Skerjafjörður er nýtt íbúðahverfi sem verður byggt við suðurhluta Reykjavíkurflugvallar. Deiliskipulagið byggir á vinningstillögu ASK arkitekta og sækir innblástur frá Þingholtunum og gamla Skerjafirði. Byggingar eru fjölbreyttar að útliti og gerð og allt umhverfið er skipulagt þannig að það verði gróskumikið og grænt. Í hverfinu verða mismunandi tegundir íbúða fyrir íbúa með ólíkan bakgrunn.

Ítarefni

Skoða hönnunarleiðbeiningar

Eldri frétt

Tímamótaskipulag nýrrar íbúabyggðar í Skerjafirði