Hvað gerir borg að góðum stað til að búa á? Eykur skipulag og umhverfi Reykjavíkur líkur á því að íbúarnir verði hamingjusamir? Er svarið falið í góðu aðgengi að útivist og grænum svæðum, menningu eða verslun og þjónustu? Fundur um þetta efni verður haldinn í fundaröðinni Heimkynni okkar, borgin, sem umhverfis- og skipulagssvið stendur fyrir, í dag þriðjudag, 10. febrúar, á Kjarvalsstöðum kl. 20.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir fundaröð með Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs, um þróun og mótun borgarinnar. Fundirnir eru haldnir klukkan 20 á Kjarvalsstöðum á Klambratúni og verður kaffihúsið opið og eru allir velkomnir. Næsti fundur er þriðjudaginn 10. febrúar 2015 þar sem spurt verður:
Hver eru áhrif borgarumhverfis á hamingju?
Yfirskrift fundaraðarinnar er Heimkynni okkar, borgin. Hugmyndin er að færa umræðu um skipulagsmál í vítt og breitt samhengi. Leitað verður eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni.
Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi, Anna María Bogadóttir arkitekt, Sigrún Helga Lund doktor í tölfræði og Páll Jakob Líndal doktor í umhverfissálfræði verða með áhugaverðar framsögur á fundinum.
Meðal spurninga sem vakna um þetta efni eru: Hvað þarf til að bæta skilyrði hamingju í borg? Er það hagstæður ferðatími, umbreyting bílamenningar yfir í aðra samgöngumáta, almennt vinsamlegt umhverfi, umhverfi sem stuðlar að heilbrigðari lífsstíl en ella? Fallegar hjólaleiðir, gönguleiðir, ánægjuleg upplifun útiveru og fjölbreytt útivist fyrir ólík áhugamál? Hvaða máli skiptir gott aðgengi að grænum svæðum? Stuðlar nálægð við sundin, fjöllin og náttúruna að hamingju? Dregur það úr sjúkdómum, hjónaskilnuðum? Hvetur það til samverustunda fjölskyldunnar? Gott aðgengi að þjónustu og stofnunum; skólum, sundlaugum, heilsugæslu o.fl. innan hverfa? Sýnileg menning og listaverk, skemmtileg torg og garðar?
Vonandi verður hægt að svara einhverjum af þeim fjölmörgu spurningum sem áhugvert verður að glíma við á fundinum.
Fundurinn er sá fjórði í röðinni. Fyrsti fundurinn hét Hver á borgina? Annar fundurinn fjallaði um hvort borgin væri heilsusamlegur staður. Þriðji fundurinn var með yfirskriftina: Á að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þeir voru allir vel sóttir.
Tenglar:
Upptökur af tveimur fundum á Kjarvalsstöðum