Hvalurinn Rauðhöfði er nýr jólavættur

Hvalurinn Rauðhöfði  er nýr jólavættur í Jólaborginni Reykjavík, en hann svamlaði í fyrsta skipti í höfninni í dag með aðstoð slökkviliðsins á Höfuðborgarsvæðinu og kom sér síðan fyrir á Slysavarnarhúsinu við Granda þar sem hann mun halda sig næstu vikurnar.
Jólaborgin Reykjavík kynnti sjö íslenska jólavætti til sögunnar í fyrra; fimm jólasveina og Grýlu gömlu. Nú bætast Rauðhöfði, Leppalúði og Skyrgámur í hópinn.  Jólavættirnir sem Gunnar Karlsson myndlistarmaður hefur teiknað byggjast á hugmynd Hafsteins Júlíussonar um að tengja Jólaborgina Reykjavík við íslenska sagnahefð.

Nýi jólavætturinn er byggður á þjóðsögum Jóns Árnasonar. Rauðhöfði er stór og mikill hvalur, sem fyrr á öldum grandaði skipum og lét öllum illum látum úti á rúmsjó. Hann var um árabil vistaður í Hvalvatni, inn af Hvalfirði og mátti dúsa þar í refsingarskyni, þar til illhvelishátturinn rann af honum.  Samkvæmt bráðskemmtilegum textum Braga Valdimars Skúlasonar hefur Rauðhöfði  í seinni tíð bætt ráð sitt og helgað sig slysavörnum, einkum á sjó. Hann er mikið jólabarn eða réttara sagt jólakálfur og veit fátt skemmtilegra en að svamla inn í höfnina á aðventunni og dást að ljósadýrðinni í miðborginni.

Jólavættirnir birtast nú einn af öðrum á húsveggjum  víðs vegar um borgina þar sem þeim verður hampað. Samfara því fer af stað spennandi ratleikur ,,Leitin að jólavættunum“  sem byggist á að finna vættina sem eru tíu talsins og svara léttum og skemmtilegum spurningum um þá. Hægt er að nálgast ratleikinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, verslunum í miðbænum og á vefnum www.visitreykjavik.is/jolaborgin. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum.

Jólavættunum er ætlað að kynna sérstöðu Reykjavíkurborgar jafnt fyrir innlendum sem erlendum gestum hennar. Meginmarkmiðið er að skapa áhrifaríka og skemmtilega jólaupplifun í miðborginni á einfaldan hátt. Um leið er hugmyndin að hvetja fólk til að segja hvort öðru sögur af eigin upplifunum og minningum af jólavættum. Til að mynda verða öll hótel og gistiheimili í Reykjavík hvött til að gefa erlendum ferðamönnum í skóinn 13 daga fyrir jól. Þannig skapast jafnframt grundvöllur til að segja sögur og stuðla að jákvæðri og alíslenskri upplifun ferðamanna.
Nánar um hvalinn Rauðhöfða: https://snerpa.is/net/thjod/raudh.htm