Hvað er friður fyrir mér?- Sigurvegarar í myndlistarkeppni barna
Mannlíf Menning og listir
Myndir sjö reykvískra grunnskólanema hafa verið valdar sem framlög Reykjavíkur í alþjóðlega myndlistarsamkeppni barna. Samtök friðarborgarstjóra (e. Mayors for Peace) standa árlega fyrir keppninni í aðildarborgum sínum og börnum í Reykjavík gafst nú í annað sinn tækifæri til þátttöku.
Þema keppninnar er „Hvað er friður fyrir mér?“ (e. What Peace Means to Me) og voru úrslit reykvísku keppninnar tilkynnt á alþjóðlegri ráðstefnu Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, The Imagine Forum, í Iðnó í gær. Keppnin var ætluð börnum á aldrinum 6-15 ára sem búa og/eða sækja nám í Reykjavík og var keppt í tveimur aldursflokkum, 6-10 ára og 11-15 ára.
Viðtökur kennara og barna við keppninni voru frábærar og voru verkin afar fjölbreytt og falleg. Því var ljóst að dómnefndarinnar beið erfitt verkefni, en hana skipuðu Agnes Ársælsdóttir, myndlistarmaður, sýningastjóri og formaður dómnefndar, Auður Birna Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Höfða friðarsetri Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, og Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.
Höfundur: Arnór Logi Guðmundsson, 9. bekk í Dalskóla.
Verðlaunamyndir gætu ratað víða
Velja mátti nokkur verk úr hvorum aldursflokki til að senda í alþjóðlegu keppnina fyrir hönd Reykjavíkur, en myndirnar sem sigra þá keppni verða notaðar víða, meðal annars í kynningarefni um mikilvægi menntunar á sviði friðarmála, til dæmis á ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Kennurum eru sendar þakkir fyrir frábært samstarf og öllum þátttakendum þökkum við fyrir fallegu listaverkin þeirra. Verk eftirfarandi listafólks voru valin áfram í erlendu keppnina fyrir hönd Reykjavíkur:
Höfundur: Fausteja Juzelenaite í 8. bekk Laugalækjarskóla.
Í flokki 6-10 ára:
Hreiðar Birkir Baldvinsson, 5. bekkur, Engjaskóli
Valdimar Atli Magnússon Briem, 4. bekkur, Engjaskóli
Í flokki 11-15 ára:
Karítas Maísól Frantzdóttir, 6. bekkur, Klébergsskóli
Nína Hildur Kristjánsdóttir, 7. bekkur, Laugalækjarskóli
Hanna Otte, 7. bekkur, Árbæjarskóli
Fausteja Juzelenaite, 8. bekkur, Laugalækjarskóli
Arnór Logi Guðmundsson, 9. bekkur, Dalskóli
Allar myndirnar sem verða sendar fyrir hönd Reykjavíkur í alþjóðlegu keppnina, má sjá á Facebook-síðu Reykjavíkur.
Höfundur: Hreiðar Birkir Baldvinsson, í 5. bekk Engjaskóla.