Húsnæðismál fatlaðs fólks til umræðu á velferðarkaffi

Á myndinni eru fulltrúar í velferðarráði ásamt öllum þeim sem fram komu á velferðarkaffi að þessu sinni.
Hópmynd með fulltrúum í velferðarráði og öllum þeim sem töluðu á velferðarkaffi 10. maí 2024

Tvær ungar konur sem báðar eru fatlaðar og hafa reynslu af því að leigja félagslega íbúð sögðu sögu sína á velferðarkaffi í morgun. Þar var fjallað um húsnæðismál fatlaðs fólks. 

 

Velferðarkaffi er opinn fundur velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Fundirnir eru haldnir reglulega og á hverjum fundi er eitt málefni tekið fyrir og fjallað um það út frá ýmsum sjónarhornum. 

Tryggja þurfi að íbúðir ætlaðar fötluðu fólki séu örugglega með aðgengi

Áslaug Ýr Hjartardóttir er 27 ára háskólanemi sem flutti fyrst úr foreldrahúsum árið 2019 á Stúdentagarðana. Hún skráði sig strax á þeim tíma á biðlista eftir félagslegu húsnæði, því hún gerði sér grein fyrir að hún kæmi ekki til með að geta keypt íbúð eða leigt á almennum leigumarkaði, í það minnsta ekki eins og málin standa í dag. Hún var ánægð á Stúdentagörðunum en vissi að hún þyrfti að flytja þaðan eftir fimm ár, sem er hámarkstíminn fyrir búsetu þar. 

Nærmynd af Áslaugu Ýr þar sem hún talar á velferðarkaffi
Áslaug Ýr Hjartardóttir er ánægð þar sem hún býr í dag en það tók hins vegar sinn tíma að fá félagslega íbúð. 

 

Tíminn leið og henni leist ekki á blikuna, þar sem tíminn á Stúdentagörðunum var að renna sitt skeið. Eftir tæp fimm ár á biðlista fékk hún hins vegar boð um félagslega íbúð sem henni leist mjög vel á. Þegar hún fór að skoða kom hins vegar í ljós að þar var engin aðstaða fyrir NPA-starfsfólkið hennar og því þurfti hún að afþakka boðið. Nokkrum vikum síðar fékk hún boð um aðra íbúð, nú í Bryggjuhverfinu. Úr varð að hún flutti þangað og þar er hún ánægð, enda íbúðin stór, falleg og björt í nýju húsi. Hún hefur þó þurft að ganga á eftir tilteknum breytingum á baðherbergi íbúðarinnar og það sér ekki alveg fyrir endann á því. Áslaug segir að það þurfi að passa betur upp á að það sé raunverulegt aðgengi fyrir fatlað fólk í íbúðum sem því er ætlað. Einnig þurfi að gæta betur að brunavörnum, hafa fleiri íbúðir á jarðhæð og ekki síst þurfi að huga enn betur að staðsetningu íbúða hvað samgöngur varðar.  

„Starfsfólkið er æðislegt og hjálpar mér að vera sjálfstæð“

Ásdís Ásgeirsdóttir er 33 ára gömul kona sem starfar bæði á leikskóla og á Ási vinnustofu. Hún flutti úr foreldrahúsum árið 2018, þegar hún fékk boð um að flytja á íbúðakjarna miðsvæðis í Reykjavík. 

Nærmynd af Ásdísi þar sem hún stendur í pontu á velferðarkaffi.

Íbúðakjarnar eru fyrir fatlað fólk sem þarf mikinn stuðning á eigin heimili. Þar fá íbúar þjónustu eftir þeirra stuðningsþörfum, ýmist allan sólarhringinn eða hluta úr degi. „Það var skrýtið í fyrstu,“ segir hún, enda vön því að búa með foreldrum sínum en hún á jafnframt tvær systur og bróður. Hún fór hins vegar fljótt að kunna vel við sig á nýju heimili. „Mér finnst bara gaman, starfsfólkið er æðislegt og hjálpar mér að vera sjálfstæð,“ segir hún.  

Fóru yfir uppbygginguna, stöðuna og framtíðarhorfunar

Auk þeirra Áslaugar og Ásdísar komu á fundinn þau María Pétursdóttir og Kjartan Þór Ingason, fulltrúar ÖBÍ réttindasamtaka, og fjölluðu um nýlega skýrslu samtakanna um húsnæðismál fatlaðs fólks. Þau ræddu meðal annars um hversu víðtækt hugtak „húsnæði fyrir fatlað fólk“ er, enda sé hópurinn fjölbreyttur með ólíka gerð fötlunar, félagslegan bakgrunn, fjárhagslega stöðu og tengslanet. Því þurfi að greina þarfir hópsins í víðu samhengi. Elmar Erlendsson fjallaði um hlutverk stofnunarinnar sem felst meðal annars í því að tryggja húsnæðisöryggi með því að stuðla að auknu aðgengi almennings að viðunandi húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði, hvrot sem það er til eignar eða leigu. Að lokum fjallaði Ólafía Magnea Hinriksdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu málefna fatlaðs fólks á velferðarsviði, um uppbyggingaráætlun Reykjavíkurborgar og fór yfir uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk í borginni, allt frá því að málaflokkurinn var fluttur frá ríki til borgar árið 2011.