Innblástur frá Van Gogh í Hljómskálagarðinum

Umhverfi

Þorsteinn Magni Björnsson við blómabeð í Hljómskálagarðinum.

Hljómskálagarðurinn er garður fyrir fólk og náttúru og er sérlega fallegur í ár. „Það er í sjálfu sér ótrúlegt að svona stór garður sé í miðborg. Það sem hefur heillað mig mest er samspilið á milli náttúrunnar sjálfrar og stífrar skrúðgarðyrkju sem ég hef leikið mér með,“ segir Þorsteinn Magni Björnsson garðyrkjufræðingur og umsjónarmaður Hljómskálagarðsins hjá Reykjavíkurborg.

„Ég vil að garðurinn sé fyrir fólk og náttúru, að hér sé fallegt umhverfi og hægt sé að fara í frjálsa leiki. Ég kem úr sveit og kann að meta hvað það er friðsælt hérna þó allt í kring séu götur og mikið mannlíf. Það er góð stemning og friður í garðinum,“ segir hann og finnst mikilvægt að fólk hafi aðgengi að grænu svæði sem þessu.

„Það er gífurlega mikilvægt og fólk notar garðinn mikið. Margir ganga líka hérna í gegn og fá þá þessa upplifun í heilandi umhverfi sem gerir fólki gott. Þetta er gott fyrir sinnið,“ segir hann.

Skálin hjá Jónasi

Nýjasta svæðið sem hefur verið tekið í gegn í garðinum er svæðið frá Hljómskálanum að styttunni af Jónasi Hallgrímssyni. „Hér er ekta skrúðgarður í enskum landslagsstíl. Þetta svæði tókum við í gegn í fyrra,“ segir hann en þarna var grisjað og bestu birkitrén skilin eftir og er útkoman virkilega skemmtileg og mikil breyting. Þetta svæði hefur fengið nafnið Skálin.

Skemmtileg beð eru í garðinum sem mörg hver hafa verið tekin í gegn á síðustu árum. „Ég hugsa plöntuvalið út frá því að það sé bæði fjölbreytt og nokkuð harðgert og það sé líka þægilegt í umhirðu,“ segir Þorsteinn sem er til að mynda hrifinn af skrautgrösum og segir þau gefa beðunum náttúrulegra yfirbragð.

Öll gróðurbeð eru líka hugsuð þannig að á endanum vaxi plönturnar saman sem gerir þau bæði fallegri og auðveldar alla umhirðu.  Hann velur líka plöntur út frá áferð á blöðum og litum þeirra og hann kýs mjúkar línur í beð umfram beinar línur og kassalaga.

Stjörnubjört nótt og miðjarðarhafslitir

Hvað sumarblómin varðar eru sterkir litir áberandi í garðinum og er ástæða fyrir því. Síðustu ár hefur Þorsteinn fengið innblástur að hönnun beðanna frá listaverkum. Hann er hrifinn af abstraktlist og hefur til að mynda fengið innblástur frá verkinu Óður til mánans eftir Finn Jónsson og notaði hluta af því sem fyrirmynd í beð.

Í ár er innblásturinn að mestu kominn frá Stjörnubjartri nótt eftir Vincent van Gogh. Sterkir miðjarðarhafslitir og –stemning einkenna beðin. „Ég lagði út frá andstæðunum appelsínugulur og blár og gulur og fjólublár,“ segir Þorsteinn. Þetta er til að mynda áberandi í stóra beðinu sem sést vel frá Hringbrautinni og er í brekkunni við göngubrúna en meðfylgjandi er mynd af Þorsteini við þetta beð.

Mjög fallegt er í garðinum hvert sem á er litið. Þorsteinn beygir sig niður og tekur visna blómknúppa og hreinsar á leiðinni um garðinn. Til að ýta undir Miðjarðarhafsstemninguna eru líka sólblóm í garðinum og er gaman að fylgjast með þeim sem eru byrjuð að blómstra.

Kassíópeia með reynitrjám

Það er fleira í garðinum sem óvæntur innblástur liggur að baki eins og fimm ólíkar reynitegundir sem eru gróðursettar eins og stjörnumerkið Kassíópeia. „Það er gaman að hafa eitthvað að baki til að vinna með og finnst í náttúrunni,“ segir hann en við hlið þessara reynitrjáa má finna súlubeyki, bæði gult og fjólublátt og svartylli þar undir. Þessar plöntur eru allar við stíginn sem liggur frá Hljómskálanum að leiksvæðinu, skemmtilegur malarstígur sem er ákveðinn meginás í garðinum frá upphafi. Þorsteinn hefur unnið sérstaklega með þetta svæði og styrkt þennan ás með endurgerð beða sitt hvorum megin við hann. Þarna má finna fjölæringabeð, trjá- og runnabeð og sumarblóm. Meðfylgjandi myndir tala sínu máli.

Líka fyrir fuglana og skordýrin

Á einum stað í garðinum má sjá hærra gras, fífur, víði og blágresi. Þetta er þriðja sumarið sem þessi blettur er ekki sleginn. „Fólk sér þetta kannski hvergi annars staðar en í sveit. Það er líka of blautt til að gera eitthvað annað. Sláttuvélarnar hafa sokkið hérna,“ segir Þorsteinn sem segir þetta minna á að allt þetta svæði sé gömul mýri. „ Ég vildi líka að fuglarnir og skordýrin hefðu meira umráðasvæði.“

Fyrir nokkrum árum var hætt að slá í kringum suðurtjörnina. „Við höfum plantað trjám og runnum þar og líka fjölæringum. Það er stíft skrúðgarðaútlit öðrum megin og villt hinum megin. Gæsirnar hakka líka í sig grasið,“ segir hann en áður kom fyrir að þær hafi gætt sér á sumarblómunum.

Hvað sumarblómin varðar fer hönnun beðanna fram haustið á undan. „Í byrjun október byrjum við að hanna beðin. Í framhaldinu reiknum við út fjölda blóma og við pöntum plönturnar til Ræktunarstöðvar Reykjavíkur í októberlok. Síðustu vikuna í maí byrjum við að planta út en það fer allt eftir veðráttu. Stundum er næturfrost í byrjun júní og sumar tegundir þola það ekki.“

Þorsteinn er garðyrkjufræðingur og byrjaði að vinna í garðyrkjunni hjá Reykjavíkurborg  árið 2003. „Ég var þá staðsettur í Laugardal og var þar í fimm ár. Svo fór ég yfir í Ræktunarstöð Reykjavíkur árið 2008,“ segir Þorsteinn sem tók síðan við sem umsjónarmaður Hljómskálagarðsins árið 2015.

Hugurinn er ekki ferkantaður

Garðyrkja er ekki bara vinnan hans heldur líka áhugamál og ástríða. „Garðyrkja er eitthvað svo manísk,“ segir Þorsteinn og segir það eiga vel við sig. „Ég er með geðhvörf. Mér fannst það erfitt á sínum tíma en er í mjög góðu jafnvægi í dag,“ segir hann og útskýrir að garðyrkja sé skapandi og það hafi hjálpað sér. „Ég sótti í það að fara út fyrir kassann. Hugurinn er ekki ferkantaður heldur er bara allskonar. Þetta hefur hjálpað mér að þróast í starfi,“ segir hann og á þá við að skapa út fyrir boxið.

„Mér finnst alltaf skemmtilegra og skemmtilegra í þessu starfi. Ég er alltaf að þróast og eflast og er svo heppinn að borgin treystir mér. Við höfum verið að taka í gegn svæði og fengið skilning og fjármagn til þess að endurnýja hlutina,“ segir Þorsteinn enda hefur garðurinn sjaldan litið jafn vel út og er vel hægt að mæla með heimsókn í Hljómskálagarðinn.