Hreinsum saman, tökum þátt og tínum rusl

Umhverfi

""
Reykjavíkurborg efnir til hreinsunardaga 2.-7. maí og hefur opnað skráningarsíðu þar sem hægt er að velja úr opnum leiksvæðum og nágrenni. Fyrirtæki eru sérstaklega hvött til að taka þátt. #hreinsumsaman
Reykjavíkurborg tekur þátt í evrópskri hreinsunarviku með því að hvetja fólk og fyrirtæki til að hreinsa saman 2.-7. maí og borgin efnir til sérstaks hreinsunardags laugardaginn 7. maí. Borgarbúar geta valið sér opið leiksvæði og nágrenni á skráningarsíðu og fyrirtæki geta skráð sig til leiks og fengið viðurkenningarskjal.
 
Reykjavíkurborg vinnur nú að því hörðum höndum að hreinsa og fegra borgina og býður nú öllum að taka þátt. Kjörið er að taka saman höndum og velja sér svæði til að fegra. Öll opin leiksvæði hafa verið skráð inn á skráningarsíðuna og auðvelt að velja sér stað. Þeir sem vilja geta fengið ruslapoka á hverfastöðvum Reykjavíkurborgar á Njarðargötu, við Jafnasel og Stórhöfða á laugardeginum eða dagana á undan.

Stöfum skipt út fyrir ruslatínur

Fréttir hafa þegar borist af hópum sem taka sig til og tína rusl á völdum svæðum. Stafagönguhópur frá Heilsuborg var á ferðinni í Elliðaárdalnum nýlega og ákvað að sleppa stöfunum og taka sér ruslatínur í hönd í tvo tíma. Þau fylltu fjóra stóra poka og fylgdi sögunni að þau hefðu gert það sama fyrir ári síðan og þá fyllt tíu poka. Vonir standa því til að það taki skemmri tíma að hreinsa borgina af rusli þetta árið. Ein úr hópnum sagði að þær hefðu fengið hrós frá vegfarendum og orðið öðrum hvatning til að gera það sama. 
 
Allar upplýsingar um hreinsunardagana er að finna á heimasíðunni reykjavik.is/hreinsumsaman og fésbókarsíðunni https://www.facebook.com/hreinsumsaman
 
Tenglar: