Horfir nýjum augum á hverfið sitt

"Eftir að ég tók þetta verkefni að mér horfi ég öðrum augum á hverfið mitt og tek betur eftir því sem er gott og því sem má betur fara.“
Kolbrún Jarlsdóttir var valin með slembivali í íbúaráð Miðborgar og Hlíða. Á myndinni stendur hún við blokk í Hlíðunum.

Kolbrún Jarlsdóttir var valin með slembivali í íbúaráð Miðborgar og Hlíða. Hverfið er henni vel kunnugt en hún ólst upp í Þingholtunum til níu ára aldurs þegar leið hennar lá í Kópavoginn. Árið 1984 eða 16 árum síðar flutti hún aftur til Reykjavíkur og hefur Kolbrún búið í hverfi Miðborgar og Hlíða síðan ef frá eru talin námsár erlendis.

„Ég þáði setuna í íbúaráði af því að ég er svo forvitin. Ég hugsaði að ég gæti alltaf hætt ef mér þætti þetta leiðinlegt en lít á mig sem lærling í ráðinu. Eftir að ég tók þetta verkefni að mér horfi ég öðrum augum á hverfið mitt og tek betur eftir því sem er gott og því sem má betur fara,“ segir Kolbrún. 

Vill hægja á umferð og vernda græn svæði

Henni eru umferðarmál hugleikin og hún tekur Hamrahlíðina sem dæmi. „Í götunni eru menntaskóli, grunnskóli, leikskóli og Blindrafélagið. Þarna eru gangandi vegfarendur og mikil bílaumferð, lítil lýsing og við erum flest svartklædd. Þarna þarf að lækka hámarkshraða og við þurfum öll að bera fleiri endurskinsmerki í skammdeginu.“ Hún bætir við að hverfi verði að vera barnvæn og að víða mætti lækka hámarkshraða og beita sektum til að ná niður ökuhraða. 

Kolbrún leggur áherslu á að vernda græn svæði. Hún nefnir sem dæmi áform um að reisa risastórt neon-auglýsingaskilti við Öskjuhlíðina en það sé ekki góð þróun. Henni er hjartans mál að hugað verði betur að hönnun í þéttingu byggðar. „Það er nóg komið af háhýsum. Við þurfum lágreista byggð þar sem áhersla er lögð á birtu því lýsing skiptir svo miklu máli á Íslandi. Við eigum að vernda andrými og rækta nærumhverfi með góðri nærþjónustu. Mig dreymir um lágreista íbúðakjarna fyrir eldri borgara og mér finnst snjallræði að reisa slíka í Skerjafirði eða á Miklubraut þegar hún verður komin í stokk.” 

Frábær nærþjónusta

„Það er tilhlökkunarefni að Miklubraut fari í stokk því þá verður enn sterkari tenging milli Miðborgar og Hlíða,“ segir Kolbrún. Hún segir Klambratúnið tengja þessa tvo borgarhluta því bæði garðurinn og Kjarvalsstaðir séu vel sótt af íbúum hverfanna. Sjálfri finnst henni hverfi Miðborgar og Hlíða fullkomið. „Hér eru samgöngur til allra átta, frábær útivistarsvæði og mjög góð nærþjónusta. Ég þarf sjaldnast að ganga í meira en fimm mínútur til að nálgast nauðsynjar. Það kom mér verulega á óvart hve víðtæk þjónusta er í hverfinu,“ segir hún. 

Kolbrún er hæstánægð með að búa miðsvæðis. Hún nefnir sem dæmi aukna áherslu á gróður allan ársins hring. Hún hrósar blómaskreytingakerjunum sem búið er að koma fyrir í miðborginni og skarta árstíðabundnum blómum. „Það er svo gott fyrir sálina,“ segir hún. 

Hverfasíður efli hverfisandann

Kolbrún segir að með hverfasíðunum á Facebook sé fólk farið að tala meira saman og tjá sig um hverfið sitt, bæði um það sem er gott og það sem betur má fara. „Þar getum við lært mikið um viðhorf íbúa til hverfisins og jafnframt hvatt fólk til að fylgjast með því sem er að gerast. Það borgar sig til dæmis að fylgjast vel með breytingum í hverfum því skipulag getur breyst verulega frá því það er kynnt fyrst og þar til endanlegt skipulag liggur fyrir.“ 

Sjálf segist hún ekki hafa vitað um tilvist íbúaráða þegar hún var valin sem fulltrúi. „Þetta er frábært. Þarna hittumst við og ræðum um allt sem má betur fara í hverfinu okkar og fundirnir eru alltaf í beinu streymi svo allir sem hafa áhuga á nærumhverfinu geta fylgst með. Ég vona innilega að fólk nýti sér það.“ 

Íbúaráð Reykjavíkur

Íbúaráð Reykjavíkur eru lifandi samstarfsvettvangur íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda.  Með íbúaráðunum er ætlunin að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar og efla möguleika íbúa á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fulltrúar í hverju íbúaráði eru sex talsins; þrír pólitískir, tveir úr grasrót í viðkomandi hverfi og einn slembivalinn.