Hlutfall virkra ferðamáta mælist 22% hjá fullorðnum

Samgöngur

Gangandi fólk í umferðinni

Hlutfall virkra ferðamáta hjá fullorðnum stendur í stað milli ára en lækkar hjá börnum, þetta kemur fram í stuttri könnun Gallup á ferðavenjum borgarbúa.

Hlutfall virkra ferðamáta hjá börnum á leið í skóla, það er þeirra sem fara fótgangandi eða nota einhverskonar hjól, mældist 67% í árlegri ferðavenjukönnun en var 74% árið 2023. 

Hlutfall virkra ferðamáta hjá 18 ára og eldri mældist 23% í þessari mælingu og er sambærilegt því sem mældist á síðasta ári. Hlutfallið hefur hækkað töluvert frá árinu 2008 þegar það var 11%.

Árlega leggur Gallup fyrir spurningar um ferðavenjur borgarbúa til vinnu/skóla fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Gagnaöflun fór fram í október 2024 hefur verið gerð með sambærilegum hætti frá 2008. Könnunin var netkönnun, úrtakið var 1882 manns og þátttökuhlutfall tæplega 45%.

Hvernig fóru börn í skólann og fullorðnir í vinnu eða skóla?

  • Tæplega 65% fullorðinna ferðast á bíl sem bílstjórar til vinnu eða skóla, 5% sem farþegar í bíl þannig að samanlagt er hlutdeild einkabílsins sem ferðamáta 70%. 
  • Almenningssamgöngur (strætó) eru notaðar af 8% fullorðinna Reykvíkinga. 
  • Hlutfall þeirra sem fer fótgangandi er 12,5%, 5% á hjóli, 2,5% ferðast á rafmagnshlaupahjóli og 2% á rafmagnshjóli. Samanlagt er hlutdeild virkra ferðamáta því 22%.

Hvernig væri fólk helst til í að ferðast?

Fólk var beðið um forgangsraða því hvernig það myndi helst vilja ferðast í vinnuna. Flest sögðust helst vilja ferðast með einkabíl eða 41%, næst flest fótgangandi eð 25%. 17% vildu helst ferðast á hjóli/rafmagnshjóli og 7% með strætó. 

Fullorðnir

  • Mjög litlar breytingar eru á hlutfalli þeirra sem keyra til vinnu eða skóla.
  • Hlutfall þeirra sem fer fótgangandi til vinnu eða skóla er 13%.
  • Hlutfall þeirra sem hjólar til vinnu eða skóla er 5%.
  • Fólk á aldrinum 18-34 ára er duglegra að nota strætó en þeir sem eldri eru. 
  • Fólk sem býr fjær miðbænum notar einkabílinn frekar til að ferðast til vinnu eða skóla. 
  • Eftir því sem fólk er eldra því líklegra er það til að ferðast á á einkabíl til vinnu.

Börn

  • Börn sem hjóla eða ganga, þ.e. nýta virka ferðamáta á leið í skólann eru 67%.
  • Heldur færri börn nota virka ferðamáta í ár en í fyrra á leið í skóla. Þeim fækkar sem fara fótgangandi en þeim sem ferðast með strætó/skólabíl fjölgar á milli ára.

Virkir ferðamátar styðja við lýðheilsu

Breyttar ferðavenjur tengjast áherslum um þróun borgarinnar, lýðheilsu borgarbúa og loftslagsmálum. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur kemur meðal annars fram markmið um að hlutfall ferða á bíl verði 50% fyrir árið 2040. 

Virkir ferðamátar styðja við bætta lýðheilsu íbúa í borginni. Breyting á ferðavenjum er mikilvæg til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík en 70% allrar losunar er vegna samgangna.