Hlutfall virkra ferðamáta hjá fullorðnum fer vaxandi

Samgöngur Skóli og frístund

Á leið í skóla

Hlutfalla virkra ferðamáta hjá börnum á leið í skóla, það er þeirra sem fara fótgangandi eða nota einhverskonar hjól, mældist 74% í þessari mælingu en var 78% 2022. Þetta hlutfall mældist lægst 64% árið 2010 en hefur verið á uppleið síðan. Hlutfall virkra ferðamáta hjá 18 ára og eldri mældist 24% í þessari mælingu og fer vaxandi en var 11% 2008 þegar það var lægst.

Árlega leggur Gallup fyrir spurningar um ferðavenjur borgarbúa til vinnu/skóla fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Gagnaöflun fór fram í október 2023 og hefur verið gerð með sambærilegum hætti frá 2008.

Hvernig börnin fóru í skólann og fullorðnir í vinnu eða skóla

Rúmlega 63% fullorðinna ferðast á bíl sem bílstjórar til vinnu eða skóla, 5% sem farþegar í bíl þannig að samanlagt er hlutdeild einkabílsins sem ferðamáta 68%. Almenningssamgöngur (strætó) eru notaðar af 8% fullorðinna Reykvíkinga. Hlutfall þeirra sem fer fótgangandi er 12%, 8% á hjóli, 2% ferðast á rafmagnshlaupahjóli og jafnmargir á rafmagnshjóli. Samanlagt er hlutdeild virkra ferðamáta því 24%.

Graf

Fullorðnir

  • Helstu breytingar á milli ára eru að færri keyra til vinnu en áður.
  • Hlutfall þeirra sem nota virka ferðamáta til vinnu eykst en hlutfall sem notar einkabíl minnkar.
  • Hlutfall almenningssamgangna hækkar á milli mælinga en hefur verið hærra ef litið er lengra aftur í tímann.

Ýmsar áhugaverðar upplýsingar koma fram þegar rýnt er í greiningar eftir lýðfræði:

  • Konur ganga frekar til vinnu eða skóla en karlar eru líklegri til að hjóla. Fólk á aldrinum 18-34 ára er duglegra að nota strætó en þeir sem eldri eru. Fólk sem býr fjær miðbænum notar einkabílinn frekar til að ferðast til vinnu eða skóla.

Börnin

  • Færri börn  nota virka ferðamáta í ár en í fyrra á leið í skóla en munurinn er ekki marktækur. Þeim fækkar sem fara fótgangandi en þeim sem ferðast á hjóli, hlaupahjóli og rafmagnshlaupahjóli fjölgar lítillega.  
  • Fleiri börnum er skutlað á einkabíl í skólann en í fyrra en vert er að taka fram að hlutfallið var heldur í lægra lagi þá miðað við eldri kannanir. Núna er þetta svipað og árið 2021.
  • Börn sem hjóla eða ganga, þ.e. nýta virka ferðamáta á leið í skólann eru 74%.
  • Þeim fækkar heldur frá í fyrra sem nýta almenningssamgöngur, þ.e. strætó eða skólabíl,  á leið í skólann en nú mælist það hlutfall   5% en var 10% 2021.
  • Nauðsynlegt er þó að benda á að niðurstöður fyrir börn byggja á mun færri svörum en meðal fullorðinna og eru því með hærri vikmörk.

Könnunin var netkönnun, úrtakið var 1808 manns og þátttökuhlutfall tæplega 50%.

Virkir ferðamátar styðja við lýðheilsu

Breyttar ferðavenjur tengjast áherslum um þróun borgarinnar, lýðheilsu borgarbúa og loftslagsmálum. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur kemur meðal annars fram markmið um að hlutfall ferða á bíl verði 50% fyrir árið 2040. Virkir ferðamátar styðja við bætta lýðheilsu íbúa í borginni. Breyting á ferðavenjum er mikilvæg til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík en 70% allrar losunar er vegna samgangna. 

Tenglar